Jónsmótið í dag í góðu veðri.

Í dag var Jónsmótið haldið í Böggvisstaðafjalli. Það voru um 130 krakkar, á aldrinum 9-12 ára, alls staðar af landinu sem tóku þátt í mótinu. 9-10 ára krakkarnir kepptu í stórsvigi en 11-12 ára kepptu í stórsvigi og sundi. Keppnin hjá 11-12 ára er því að hluta til með óhefðbundnu sniði því betri ferðin í stórsviginu gildir á móti 50 metra bringusundi. Veitt eru verðlaun fyrir hverja grein í hvorum aldursflokki og einnig verðlaun fyrir tvíkeppni, stórsvig/sund. Eftir keppni dagsins í sundlauginni var síðan boðið til farastjórahófs í Kaffi Sogni þar sem borð svignuðu undan kræsingum að vanda. Í kvöld var síðan kvöldvaka og ekki annað að sjá en krakkarnir skemmtu sér vel. Á morgun keppa síðan 11-12 ára í svigi og hefst keppni kl. 10:00. Veðrið í Böggvisstaðarfjalli var mjög milt og gott í dag þó svo að hitastigið mætti vera lægra en það hentaði hins vegar vel til frystinga því að það þurfti að frysta keppnisbrekkuna í stórsviginu. Það var fjöldi fólks á skíðum í fjallinu í dag eða um 430 manns.