30.03.2003
Um helgina fóru fram tvö bikarmót í flokki 15-16 ára og fullorðinna í Hlíðarfjalli. Þrír Dalvíkingar kepptu á mótunum en það eru Snorri Páll Guðbjörnsson, Kári Brynjólfsson og Sveinn Brynjólfsson. Á föstudag var keppt í stórsvigi og þá fóru þeir Snorri og Kári báðir út en Sveinn hafnaði í fjórða sæti í karlaflokki.
Í gær var síðan keppt í tveimur svigum. Í fyrra mótinu hafnaði Sveinn aftur í fjórða sæti en í því síðara gerði hann sér lítið fyrir og komst á verðlaunapall með því að verða þriðji. Í flokki 15-16 ára sigraði Snorri Páll Guðbjörnsson með yfirburðum í fyrra mótinu en Kári fór út úr í seinni ferð eftir að hafa verið með annan besta tíman eftir fyrri ferð.
Í seinna mótinu varð Snorri í þriðja sæti en hann var með besta tímann eftir fyrri ferð og Kári varð í fimmta sæti.
Í dag var síðan keppt í stórsvigi og þá endaði Sveinn í fimmta sæti í fullorðinsflokki. Í flokki 15-16 ára varð Snorri í öðru sæti og Kári hafnaði í því sjötta.
Það verður ekki annað sagt en drengirnir hafi staðið sig vel og gaman að sjá Svein velgja undir uggum þeim sem æfa stíft en hann er í þessu sér til skemmtunnar! Snorri Páll er á bullandi siglingu og hefur greinilega náð góðum árangri á afreksbrautinni í vetur eins og aðrir sem þar eru og úrslit mótanna um helgina sýna glöggt. Kári er til alls líklegur en þess ber að gæta að hann hefur ekki getað æft að fullum kafti vegna snjóleysis í Böggvisstaðafjalli í vetur en hefur æfti í Hlíðarfjalli eftir bestu getu.
Hægt er að sjá öll úrslit á heimasíðu Skíðafélags Akureyrar www.skidi.is