07.04.2002
Við upphaf lokahófs Skíðamóts Íslands í dag kvaddi Kristinn Björnsson, skíðamaðurinn knái frá Ólafsfirði, sér hljóðs og þakkaði fyrir allan þann stuðning sem hann hefði hlotið þann tíma sem hann hafi stundað skíðin sem atvinnumaður. Einkum þakkaði hann heimaaðilum fyrir stuðninginn og sýndi þakklæti sitt í verki með því að færa styrktaraðilunum að gjöf númeravesti frá ferli hans í heimsbikarnum í gegnum tíðina. Sömuleiðis færði hann Hauki Bjarnasyni, þjálfara sínum, gjöf á þessum tímamótum.
Kristinn var sömuleiðis leystur út með gjöfum. Ólafsfjarðarbær færði honum minjagrip, mótsnefnd Skíðamóts Íslands færði honum blómvönd og það sama gerðu annars vegar Skíðafélag Ólafsfjarðar og hins vegar Skíðafélag Dalvíkur. Það var tilfinningaþrungin stund í Tjarnarborg þegar allir viðstaddir risu úr sætum og klöppuðu Kristni lof í lófa og þökkuðu honum þannig vel og innilega fyrir það sem hann með framgöngu sinni á undanförnum árum hefur gert fyrir vöxt og viðgang skíðaíþróttarinnar á Íslandi.