Kristján Ólafsson í örspjalli við útsendara Skíðafélagsins:

Blaðamenn Skíðafélagsins litu við hjá Kristjáni Ólafssyni formanns íþrótta, æskulýðs og menningarnefndar Dalvíkurbyggðar og ræddu við hann í tilefni tímamótanna: Fram kom hjá Kristjáni að samstarfið á milli Skíðafélagsins og Dalvíkurbyggðar væri búið að vera til fyrirmyndar í gegnum tíðina og í félaginu hafa alla tíð verið stórhuga fólk með góða framtíðarsýn. "Mér finnst aðdáunarvert hvað mikið sjálfboðastarf hefur verið unnið í fjallinu og það er alveg ljóst að Skíðafélagið væri ekki það sem það er í dag ef þess hefði ekki notið við". En telur Kristján að menn hafi gert rétt þegar þeir ákváðu að Skíðafélagið myndi sjálft annast rekstur skíðasvæðisins í Böggvisstaðarfjalli? "Það er ekki spurning að þetta fyrirkomulag hefur reynst bæði Skíðafélaginu og bæjarfélaginu vel. Bæjaryfirvöld hafa auðvitað stutt félagið eftir bestu getu en við sjáum hvað hefur gerst hjá nágrannasveitarfélögum af sömu stærðargráðu þegar þau hafa tekið yfir rekstur sambærilegra svæða. Þetta er fyrirkomulag sem getur eflaust gengið í stærri byggðarlögum en það er ill framkvæmanlegt að byggja upp svo stórt svæði í svo smáu byggðarlagi sem Dalvíkurbyggð nema að til komi umtalsverð sjálfboðavinna og það er alls ekki sjálfgefið að bæjarfélagið hafi aðgang að slíkri vinnu." Mikið uppbyggingastarf framundan En hvað er framundan, sér Kristján fyrir sér frekari uppbyggingu á skíðasvæðinu? "Alveg tvímælalaust, á síðasta kjörtímabili vann íþrótta, æskulýðs og menningarnefnd í samstarfi við Skíðafélagið 8 ára uppbyggingaráætlun fyrir skíðasvæðið þar sem menn eru að stefna að hlutum eins og troðarageymslu, nýjum troðara og frekari uppbyggingu á skíðalyftum svæðisins auk ýmissa smærri verkefna s.s. lagningu hitaveitu og úrbætum á veginum upp að Brekkuseli. Nú þegar hefur hitaveitan verið tekin inn í Brekkusel og vegagerðin er komin á áætlun hjá Vegagerðinni og auðvitað er stefnt að því að vinna áfram eftir þessari áætlun en þessir hlutir kosta peninga og þeir vaxa ekki á trjánum. Talandi um peninga þá vil ég einnig nefna að fjármál Skíðafélagsins og bókhald er til mikillar fyrirmyndar en það er einmitt ein af forsendum þess að bæjaryfirvöld séu tilbúinn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar." Svona rétt að lokum lék blaðamönnum forvitni á að vita hvort Kristján hefði sjálfur einhverntíman stigið á skíði? "Já, já sem strákur var ég á skíðum en eftir að ég flutti til Dalvíkur hef ég alveg látið það eiga sig en ég hef mikinn áhuga á skíðaíþróttinni eins og íþróttum almennt. Við þökkum Kristjáni fyrir spjallið og væntum þess að eiga gott samstarf við hann og aðra fulltrúa bæjaryfirvalda hér eftir sem hingað til.