Lokahóf eldra liðs Skíðafélags Dalvíkur.

Í fyrrakvöld var lokahóf eldra liðs Skíðafélags Dalvíkur. Það hefur dregist á langinn að halda lokahófið meðal annars vegna þess að krakkarnir hafa verið á ferð og flugi í allt vor. Kristinn Ingi kom heim um síðustu helgi þannig að loksins voru allir heima til að slútta vetrinum. Að venju voru bikarar afhentir en það eru farandbikarar sem veittir eru fyrir árangur vetrarinns. Þeim fylgir síðan eignargripur sem að þessu sinni var peningur. Eftirtaldir hlutu viðurkenningu og afhenti Sveinn Torfason bikarana og sagði við það tilefni: Afreksbikar hlýtur Björgvin Björgvinsson, bikarinn afhendist fyrir þrefaldan íslandsmeistara titil í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni, auk sigurs á Icelandair cup 2003. Einnig tók Björgvin þátt í HM í st.Moritz fyrir Íslands hönd þar sem hann hafnaði í 35 sæti í svigi en keppendur voru alls um 140. Bikar fyrir óvæntasta afrekið hlýtur að þessu sinni Snorri Páll Guðbjörnsson. Á snjólitlum vetri eins og við upplifðum í vetur er erfitt að halda einbeytningu allt tímabilið. Sá sem þennan bikar hlýtur, byrjaði af miklum krafti, tók þátt í Ólympíuleikum æskunnar í Slóveníu og stóð sig með sóma. Sigraði og var í fremstu línu sinna jafnaldra á öllum mótum sem hann tók þátt í. Hann varð tvöfaldur íslandsmeistari í stórsvigi og alpatvíkeppni, og einnig bikarmeistari SKI árið 2003.. Framfarabikarinn hlýtur Kristinn Ingi Valsson, hann hefur þurft að þola margan mótbyrinn í vetur, þ.á.m. rifbeinsbrot, lungnabólgu og kalnar tær svo fátt eitt sé nefnt. Ég stakk því að honum i vor að það væri ágætt að taka þetta bara allt út í ár og vera þá búinn með það í eitt skipti fyrir öll. Hann endaði tímabilið með sóma og bætti punktastöðu sína á heimslistanum verulega, hann er á flugi núna og eigum við vafalaust eftir að heyra og sjá meira af honum á næstu árum. Dugnaðarbikarinn fær Skafti Brynjólfsson. Hann lagði sig mikið fram við að komast á skíði og fleira í snjóhallaríinu á Íslandi. Nam land í Noregi og settist þar að fram á vordaga, einnig hefur hann verið duglegur í starfi félagsins við mótahöld og annað tilfallandi. Ástundunarbikarinn hlýtur Baldvina Jóhannsdóttir. Bikarinn er veittur fyrir ástundun og áhuga á æfingum og í vetur var Baldvina með 96% mætingu sem að verður að teljast frábært hjá henni. Að lokum var skíðamaður hópsins kjörinn af iðkendunum sjálfum. Þar varð Kári Brynjólfsson hlutskarpastur og segja má að hann sé vel af gripnum komin því hann er einn af þeim aðilum sem við væntum mikils af í framtíðinni.