Lokahóf yngri barna.

Á Sunnudaginn var lokahóf yngri barna hjá Skíðafélagi Dalvíkur. Ákveðið var að þetta árið yrði gert meira fyrir krakkana en venjulega, vegna þess að Andrésar Andarleikarnir féllu niður í ár, og voru foreldrar hvattir til að mæta með börnum sínum. Kl. 14:00 mættu börn og foreldrar austur á sandi þar sem hópnum var skipt í lið og farið í sandkastalakeppni. Á stuttum tíma urðu til ótrúlegar byggingar sem krakkarnir byggðu ásamt foreldrum sínum og litu margar hugmyndir dagsins ljós. Síðan var haldið upp á íþróttavöll þar sem farið var í leiki og allir fengu kringlu og djús áður en farið var í sund en eftir sundið var síðan öllum boðið í grill í Brekkusel. Þar fengu krakkarnir viðurkenningu fyrir veturinn og Guðný afhenti þeim sem duglegastir voru að mæta smá viðurkenningu. Guðný fékk síðan smá gjöf frá foreldrafélagi yngri barna og Skíðafélaginu. Hún kvaddi síðan krakkana og sagðist hlakka til að sjá þau í desember þegar hún kemur aftur til Dalvíkur. Það var mjög ánægulegt að sjá hvað margir mættu og enn ánægjulegra hvað margir foreldrar komu með börnum sínum og tóku þátt í vel lukkuðum degi þrátt fyrir að veðrið hafi verið frekar leiðinlegt.