06.04.2004
FIS-mótasería var haldin á Akureyri og Siglufirði í tengslum við Skíðamót Íslands. Gengi okkar manna var æði misjafnt þar. Bestum árangri á mótunum fyrir landsmótið náði Björgvin Björgvinsson.
Björgvin varð í 2. sæti á fyrsta svigmótinu og fékk fyrir það 21.46 punkta. Því fylgdi hann eftir með 3. sæti í stórsvigi en fyrir það fékk hann 28.99 punkta. Eftir þessi tvö mót var hlé sem keppendur notuðu til að flytja sig um set til Siglufjarðar þar sem keppt var á einu FIS móti áður en Skíðamót Íslands byrjaði. Í FIS mótinu á Siglufirði varð Björgvin aftur annar í svigi á 21.61 punkti.
Allt gekk á afturfótunum hjá Kristni Inga Valssyni í þessari mótaseríu fyrir landsmót. Honum tókst ekki að skila sér niður í neinu af þessum þremur mótum, svo útlitið var ekki gott fyrir landsmótið.
Svipaða sögu er að segja af Skapta Brynjólfssyni nema hvað meiðsl settu strik í reikninginn hjá honum. Bakmeiðsl sem hafa verið að þjaka hann í vetur tóku sig upp í fyrsta svigmótinu og gerðu honum ófært að taka þátt í næstu mótum.
Snorri Páll Guðbjörnsson var að ná sínum besta árangri á þessum mótum. Hann náði best 15. sæti í svigi og fékk fyrir það 78. 66 punkta en hann er með 103.62 punkta á nýjasta FIS-listanum. Þá hafnaði hann í 19. sæti í stórsvigi og fékk fyrir það 95.53 punkta. Í þriðja mótinu var hann svo dæmdur úr leik.
Kára Brynjólfssyni tókst aðeins að klára eitt af þessum þremur mótum sem haldin voru fyrir Skíðamót Íslands. Hann náði að klára í stórsviginu á Akureyri og hafnaði í 26. sæti þar. Fyrir það fékk hann 112.13 punkta en á nýjasta FIS-listanum er hann með 120.65 svo hann var að bæta sig þar.