Nýr FIS-listi kominn út

Alþjóða skíðasambandið hefur gefið út nýja styrkleikalista, en þetta er þriðji listinn á þessum vetri. Okkar menn eru að vanda að standa sig vel og klifra upp listann í misjanlega stórum stökkum. Okkar efsti maður á lista er Björgvin Björgvinsson en hann er sem stendur í 283. sæti á sviglistanum með 33,35 punkta en það eru svipaðar slóðir og á síðasta lista. Í stórsvigi er hann í 293. sæti með 31,32 sem er einnig svipað og síðast. Kristinn Ingi tekur stór stökk á þessum nýja lista þar sem hann færist upp um 55 sæti í svigi, upp í 545. sæti með 44.37. Í stórsvigi tekur hann heldur stærra stökk hann upp um 185 sæti og er nú í 634. sæti með 46.58 punkta. Skapti Brynjólfsson hefur lítið getað keppt á árinu vegna meiðsla og er því lítil hreyfing á honum á listanum, en hann sígur aðeins niður á við. Vonandi fer hann að hrista það af sér svo hann geti sýnt hvað í honum býr. Snorri Páll Guðbjörnsson tekur góð stökk á listanum og er greinilega á uppleið. Hann er kominn í 2651. sæti á sviglistanum með 111,27 punkta. Þetta er 257 sæta stökk. Í stórsvigi er hann sem stendur í 2643. sæti með 106.79 punkta og hefur hækkað sig um 320 sæti frá síðasta FIS lista. BJV