29.05.2006
Rétt eftir páskana bilaði snjótroðarinn á skíðasvæðinu á Dalvík sem varð til þess að alvarlegar vangaveltur um kaup á nýjum troðara fóru af stað. Troðarinn er árgerð 1991 en hann kom hingað lítið notaður fyrir skíðavertíðina 1993 og hefur verið því verið í notkun hér á svæðinu í 14 ár. Síðustu ár hefur hann verið að þyngjast í viðhaldi og hefur þurft að gera við hann fyrir hverja skíðavertíð fyrir umtalsverðar fjárhæðir. Bilunin að þessu sinni er í vökvakerfinu og því ljóst að mjög kostnaðarsamt verður að gera við hann þannig að hann dugi okkur.
Í framhaldi af þessari bilun fórum við þess á leit við Dalvíkurbyggð að skoðað yrði alvarlega hvort ekki væri vitlegast að kaupa nýjan troðara í stað þess að gera við þann gamla. Á fundi sínum síðastliðin miðvikudag ákvað bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar að styrkja félagið til þess að festa kaup á nýjum troðara.
Í framhaldi að því hefur sú ákvörðun verið tekin að kaupa nýjan troðara af gerðinni Pisten Bully 300 frá Kassbohrer og kostar hann hingað komin um 26.000.000 króna.
Áætlað er að troðarinn verði komin til Dalvíkur í október eða um það leyti sem við ætlum að hefja snjóframleiðslu á skíðasvæðinu hér.