Nýr stigalisti FIS kominn út.

Þessa frétt er að finna á heimasíðu Skíðasambands Íslands. 5. stigalisti alþjóða skíðasambandsins, FIS kom út í dag. Björgvin Björgvinsson frá Dalvík er í 112. sæti listans í stórsvigi með 24.81 FIS-stig og er aðeins hársbreidd frá því að komast í hóp 100 bestu svigmanna heims. Björgvin bætir sig því lítillega frá því á síðasta stigalista. Þá er hann í 199. sæti í svigi með 28.75 FIS-stig. Kristján Uni Óskarsson frá Ólafsfirði sem vann til silfurverðlauna í svigi á Skíðamóti Íslands er kominn í 344. sæti listans í svigi með 37.44 FIS-stig, en hann var í 550. sæti síðasta lista með 45.62 FIS-stig. Kristján Uni er því kominn fram úr þeim Kristni Magnússyni og Jóhanni Friðrik Haraldssyni í Evrópubikarliðinu á stigalista alþjóða skíðasambandsins í svigi. Þess má geta að Kristján Uni er aðeins 18 ára að aldri og mikið efni. Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri heldur áfram að bæta stöðu sína á nýjasta stigalistanum. Hún er í 128. sæti í risasvigi með 42.83 FIS-stig, í 162. sæti í bruni með 57.02 FIS-stig, 185. sæti í stórsvigi með 27.84 FIS- stig og bætir sig verulega í svigi og stekkur upp í 358. sæti sviglistans með 45.95 FIS-stig. Þess má geta að Dagný var í 420. sæti í svigi á síðasta stigalista alþjóða skíðasambandsins og í 201. sæti í stórsvigi. Frænka Dagnýjar Lindu, Brynja Þorsteinsdóttir frá Akureyri er í 388. sæti sviglistans eftir góðan árangur á Icelandair Cup mótunum með 48.09 FIS-stig. Það hyllir undir lokin á keppnistímabili íslenskra keppenda á erlendri grundu og flestir þeirra komnir heim í bili. Síðasta mót vetrarins fer fram næstkomandi þriðjudag í Funasdalen í Svíþjóð þar sem keppt verður í svigi karla og kvenna. Ekki er ljóst hvort einhverjir Íslendingar verði þar á meðal þátttakenda. Það er ærið tilefni til að gleðjast yfir árangri íslensks skíðafólks á erlendri grundu sem staðið hefur sig vel á þessu keppnistímabili. Margir keppendur hafa verið að bæta stöðu sína jafnt og þétt á tímabilinu. Björgvin Björgvinsson og Dagný Linda Kristjánsdóttir náðu sínum fyrstu Evrópubikarstigum á tímabilinu. Björgvin varð í 29. sæti á Evrópubikarmóti í stórsvigi sem fram fór í Damuels í Austurríki 9. desember sl. og hlaut að launum tvö Evrópubikarstig. Dagný Linda varð í 29. sæti á Evrópubikarmóti í risasvigi sem fram fór í Lenzerheide í Sviss 6. mars sl. og hlaut að launum tvö Evrópubikarstig. Bæði ætla þau sér stóra hluti og vert að fylgjast vel með þeim í framtíðinni. Meðfylgjandi mynd var tekin af þeim á æfingu á Hintertux jökli í október sl.