17.04.2011
Skíðasvæðið á Dalvík verður opið alla páskadagana frá kl.10:00-16:00.Veitingasalan í Brekkuseli og skíðaleigan verður opin alla páskana á opnunartíma svæðisins. Snjóalög á svæðinu eru í ágætu lagi þrátt fyrir að nokkuð hafi tekið upp síðustu daga og snjórinn hafi minkað, sérstaklega í neðri brekkunni en þar höfum við snjó til þess að færa til og bæta aðstæður til muna. Á efra svæðinu í brekkunni við lyftuna er enn nægur snjór og fínar aðstæður til að renna sér á skíðum og brettum. Aðrar brekkur en þær sem eru við lyfturnar eru ekki opnar. Við munum gera okkar besta til að tryggja gott skíðafæri um páskana líkt og á öðrum dögum. Settar verða daglegar upplýsingar hér inn á síðuna þar sem við segjum frá aðstæðum í fjallinu.
Lopapeysudagur verður á laugardeginum. Við hvetjum alla til að mæta í lopapeysum og heiðra íslensku sauðkindina. Fyllum fjallið af mislitum lopapeysum þennan dag.
Á páskadag verður Páskaeggjamót fyrir börn fædd 2004 og yngri. Allir keppendur fá páskaegg að keppni lokinni, mótið hefst kl:12:00.
Kl:13:30 til 16:00. Margrómað kaffihlaðborð í Brekkuseli í umsjón Foreldrafélags. Á Mánudeginum verður Firmakeppni Skíðafélags Dalvíkur. Keppt verður í samhliða svigi með forgjöf og útsláttarfyrirkomulagi. Öllum heimil þátttaka. Nánari upplýsingar um tíma og skráningu verða settar inn á síðuna síðar.
Ef veður og aðstæður leyfa verða farnar troðaraferðir upp undir fjallsbrún á Böggvisstaðafjalli, nánar auglýst síðar.