Samherja styrkurinn

Eins og áður hefur komið fram styrkti Samherji Skíðafélag Dalvíkur um eina milljón króna í barna og unglingastarf félagsins. Stjórn félagsins hefur ákveðið að greiða öll æfingagjöld 2016 niður um 25% og styrkja keppnisferðir 13-18 ára innanlands 2016. Hér að neðan er frétt af akureyri.net Samherji úthlutaði 80 milljónum í samfélagsstyrki Samherji úthlutaði í gær íþrótta- og samfélagsstyrkjum á opnu húsi í nýbyggingu Útgerðarfélags Akureyringa. Heildarupphæð styrkja að þessu sinni nam 80 milljónum króna og renna þeir til ýmissa samfélagsverkefna, einkum í Eyjafirði. Að auki hlaut Íþróttasamband fatlaðra einnig fjárstyrk frá fyrirtækinu. Eins og áður kom fram fór samkoman fram í nýbyggingu Útgerðarfélags Akureyringa en þar var opið hús og bæjarbúum boðið að skoða nýja fiskvinnslu- og pökkunarstöð. Þá var bæjarbúum einnig boðið að skoða fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu mikilvægur þessi höfðinglegi styrkur Samherja til samfélagsins er. Frá árinu 2008 hefur fyrirtækið veitt um 500 milljónir í slíka styrki og sú innkoma á sér engin fordæmi hér á landi.