20.06.2002
Samstarf Skíðafélagana á Ólafsfirði og á Dalvík hefur verið að aukast ár frá ári
og verkefnin sem félögin hafa verið að taka að sér sameiginlega undanfarin ár, nú síðast Skíðamót Íslands, hafa þjappað félögunum saman og gert þau öflögri og leitt af sér samstarf á fleiri sviðum en í mótahaldi. Nefna má að síðastliðinn vetur skiptust félögin á að senda þjálfara og farastjóra á bikarmót víðsvegar um landið og þegar þannig stóð á að bæði 13-14 ára og 15 ára og eldri kepptu um sömu helgi kom þetta samstarf sér mjög vel. Þá kom sú staða upp í vetur að þjálfari eldra liðs Skíðafélags Dalvíkur forfallaðist og þá var það leyst með aðstoð Skíðafélags Ólafsfjarðar.
Í ljósi þessa góða samstarfs þá kom upp umræða um að félögin gerðu með sér nokkura ára samstarfssamning. Það var samdóma álit stjórnenda félaganna að með slíkum samningi yrðu félögin öflugri og betur í stakk búinn að takast á við hin ýmsu verkefni. Fljótlega eftir að Skíðamóti Íslands lauk fóru að stað viðræður milli félaganna um samstarfssamning og lauk þeim með undirskrift 31 maí sl.
Í grófum dráttum er innihald samstarfssamningsins eftirfarandi.
Skíðafélag Dalvíkur og Skíðafélag Ólafsfjarðar gera með sér eftirfarandi samstarfssamning til 2008.
Félögin standa saman að mótahaldi stærri móta í alpa-og norrænumgreinum s.s. landsmóta, unglingameistaramóta, FIS-móta og bikarmóta. Stefnt skal að því að halda bikarmót ár hvert á stöðunum tveimur. Félögin haldi saman stærri mót að meðaltali á 4-5 ára fresti.
Stefnt verði að því að keyra innanfélagsmót félaganna samtímis og með því verði mótin fjölmennari og fjölbreytilegri fyrir krakkana.
Félögin taki upp samstarf í þjálfun auki með því fjölbreytni og efli áhuga þeirra sem stunda æfingar hjá félögunum.
Samstarfið verði tekið upp fyrir skíðavertíðina 2002-2003 sem tilraunarverkefni og aukið í framhaldi af því.
Alpagreinanefndir í samstarfi við þjálfara félaganna geri tillögu að samnýtingu og einnig framtíðarplön og leggi fyrir stjórnir félaganna til samþykktar.
Farið verði í sameiginlegar æfinga og keppnisferðir bæði innanlands og utan
og stefnt að sameiginlegum æfingum sumar og haust.
Félögin gefi árlega út sameiginlegt upplýsingahefti fyrir krakkana og foreldra þeirra þar sem allar upplýsingar um tilhögun hverju sinni kemur fram.