Síðsumarsannáll

Þrátt fyrir að hefðbundnu vetrarstarfi hafi lokið í apríl hjá félaginu hefur margt verið að gerast í sumar sem hér verður sagt frá í stuttu máli. Þessa dagana er verið að ganga frá endurbótum á húsnæði sem Dalvíkurbyggð á en þar hefur félagið haft aðstöðu til þess að geyma ýmsan búnað sem tilheyrir félaginu að undanskyldum troðaranum sem hefur verið í öðru húsnæði sem ekki stendur til boða lengur. Húsnæðið sem gengur undir nafninu Hreiður var orðið mjög lélegt og því ekkert annað í stöðunni en að rífa það eða gera á því lágmarks endurbætur. Eftir miklar vangaveltur félagsins og Dalvíkurbyggðar var komist að samkomulagi um að endurbætur yrðu gerðar á Hreiðri þannig að búnaður félagsins kæmist í hús en nýbygging á skíðasvæðinu yrði látin bíða um sinn en jafnframt yrði haldið áfram að undirbúa það verkefni. Í raun var þetta eina lausnina á geymsluhúsnæðis vanda okkar að þessu sinni og fögnum við því að nothæft húsnæði undir búnaðinn okkar er í augsýn þrátt fyrir að við vildum byggja nýtt hús á skíðasvæðinu. Segja má að síðan 1999 höfum við reglulega reynt að fá geymsluhúsnæði byggt á skíðasvæðinu en ekki orðið ágengt. Félagið leggur fram vinnu við endurbæturnar sem samkomulag náðist um að yrði hlutur félagsins. Í kostnaðaráætlun sem Dalvíkurbyggð lét gera og unnið er eftir var ekki gert ráð fyrir neinum peningum í vinnu við endurbæturnar, einungis var gert ráð fyrir fjármagni efniskaupa. Í áætluninni var gert ráð fyrir að öll vinna yrði hlutur félagsins og þannig er það. Áætluð verklok liggja ekki fyrir en húsið er orðið klárt að utan en hurðina á eftir að setja í og verður það gert á næstu dögum. Dalvíkurbyggð mun því leggja félaginu þetta húsnæði til þar til nýtt hús verður byggt á skíðasvæðinu undir búnað félagsins eins og stefnt hefur verið að lengi. Ekki væri óraunhæft að stefna að því að slíkt hús verði komið á skíðasvæðið eftir 5 ár eða árið 2013. Aðalfundur félagsins var haldinn í Brekkuseli þann 20.maí. Nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins en úr heinni gengu Bjarni Valdimarsson sem hefur verið varaformaður í mörg ár, Snæþór Arnþórsson sem hefur verið í stjórn og þjálfari í nokkur ár og Elsa Benjamínsdóttir sem starfað hefur með félaginu lengi en hún ætlar að starfa í mótanefndinni á næstu skíðavertíð. Við þökkum þessum aðilum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og efumst ekki um að við munum áfram njóta starfskrafta þeirra í öðrum verkefnum. Ný stjórn er þannig skipuð: Formaður er Óskar Óskarsson, Birkir Bragason varaformaður, Daði Valdimarsson gjaldkeri, Sigurbjörg Einarsdóttir ritari og Kristinn Ingi Valsson meðstjórnandi. Í varastjórn eru Tryggvi Kristjánsson, Heiða Hilmarsdóttir og Vaka Sigurðardóttir. Lokahófið félagsins var tvískipt að þessu sinni. Hjá 12 ára og yngri var það haldið 27. Maí og var mæting mjög góð. Veitt voru verðlaun fyrir nokkur mót og gerður var ratleikur fyrir krakkana sem var vel lukkaður. Björgvin Björgvinsson mætti á hófið og sýndi krökkunum myndband sem sett var saman sem að sýnir Björgvin bæði í keppni og við æfingar. Hjá 13 ára og eldri var lokahófið 17. Júní. Veitt voru verðlaun fyrir veturninn og viðurkenningar fyrir árangur vetrarins og tók Björgvin Hjörleifsson þjálfari ákvörðun um það ásamt stjórn hverjir fengu viðurkenningar. Afreksbikarinn fékk Björgvin Björgvinsson, Þorsteinn Helgi Valsson hlaut Dugnaðarbikarinn, Unnar Már Sveinbjarnarson framfarabikarinn, óvæntasta afrekið kom í hlut Mod Björgvinssonar. Mjótt var á mununum varðandi veitingu á Ástundunarbíkarsins en Hjörleifur Einarsson hlaut hann að þessu sinni. Skíðamaður hópsins var síðan Unnar Már Sveinbjarnarson. Þessa dagana er verið að ganga frá ráðningu þjálfara fyrir næsta vetur. Björgvin Hjörleifsson verður áfram við þjálfun hjá félaginu sem er fagnaðarefni því hann hefur sýnt það og sannað að hann nær vel til krakkanna. Stefnt er að því að Björgvin verði með 14 ára og yngri. Þá er búið að ganga frá því að Kristinn Ingi Valsson verður þjálfari 15 ára og eldri og Harpa Rut Heimisdóttir verður með leiktímana og byrjendakennsluna. Við fögnum því að fá þau til liðs við okkur því þau hafa bæði verið lengi í skíðabrekkunum og hafa góða reynslu sem á eftir að nýtast félaginu vel. Þá stendur til að ráða einn til viðbótar til aðstoðar því í mörgum flokkum eru margir krakkar á misjöfnu getustigi. Verið er að undirbúa breytingar á dælustöðinni fyrir snjókerfið. Þessar breytingar miða að því að spara rafmagn sem er mjög stór þáttur í rekstri kerfisins en eftir þær verður dælan keyrð eftir vatnsþörf út í kerfið. Þetta þýðir að við getum nýtt betur það fjármagn sem fer í snjóframleiðsluna og framleitt meiri snjó fyrir þá upphæð sem við áætlum í framleiðsluna árlega. Stefnt er að því að þessum breytingum verði lokið um miðjan oktober því áætlað er að snjóframleiðsla hefjist strax í byrjun nóvember ef aðstæður verða hagstæðar. Hefðbundin opnun skíðasvæðisins er síðan 1. desember en opnað verður fyrr ef aðstæður leyfa. Í haust verður gengið frá jarðvegi í kring um dæluhúsið en það verkefni hefur dregist vegna umfangs þess. Þó svo að hinn almenni skíðamaður sé í sumarfríi er það ekki þannig með alla. Elstu krakkarnir hafa í sumar og fram að þessu æft sjálf en æfingar undir stjórn Danda hófust 1. ágúst. Björgin Björgvinsson hefur æft stíft í allt sumar og fór til Sviss um miðjan júlí til æfinga. Þá er hann nýkomin frá Belgíu þar sem hann var að testa Elan skíði en hann hefur gert samning við Elan fram yfir Ólympíuleikana en síðustu ár hefur hann verið á Ficher skíðum og skóm. Skórnir sem hann verður á í vetur eru Ítalskir og heita Garmont. Garmont er þekkt merki í flallgöngu- skóbúnaði en síðan 2006 hefur fyrirtækið framleitt keppnisskó fyrir alpagreinar. Þess má geta að Kiljan Albert hefur verið á þessum skóm í tvö ár og líkað vel. Þegar þetta er skrifað er Björgvin á leið til Astralíu ásamt landsliði SKI þar sem hann æfir og tekur þátt í Ástralíu og Nýjasjálands bikarnum, ferðin tekur 5 vikur. Í byrjun Júní fóru þeir Hjörleifur Einarsson og Jakob Helgi Bjarnason erlendis í 12 daga æfingaferð á jökul og nú er Jakob Helgi ný komin heim frá Landgraf í Hollandi. Sú hugmynd hefur komið upp að vera með skíðaæfingu á Dalvík fyrir sama aldurshóp og Kópaþrekið er. Það var á skíðaþinginu í vor sem Fjalar Úlfarsson stakk upp á þessu og skoraði á Skíðafélag Dalvíkur að setja slíka æfingu á. Stjórn Skíðafélags Dalvíkur hefur fjallað um málið og verið er að kanna grundvöll fyrir slíkri æfingu sem yrði þá um leið og nægur snjór verður komin á svæðið eða verið framleiddur, nánar um þetta síðar.