28.09.2003
Þessa stundina eru Skafti Brynjólfsson og Björgvin Björgvinsson á leiðinni til Frankfurt en þaðan fljúga þeir til Keflavíkur á morgun.
Þeir hafa síðan á mánudag verið við æfingar á Hintertux ásamt Jame Dunlop þjálfara íslenska landsliðsins. Í samtali við þá félaga í dag þá sögðust þeir vera mjög ánægðir með ferðina og fengið mikið út úr henni. Að sögn Björgvins voru aðstæður góðar og voru þeir að keyra frá 12 og upp í 16 ferðir á dag. Þá sagði Björgvin að fyrstu kynni að Jame væru frábær, hann væri toppmaður með allt skipulag á hreinu og vissi greinilega hvað hann væri að gera. Björgvin sagði einnig að það hefði komið greinilega í ljós í þessari ferð hvað það væri mikilvægt að vera með sínu eigin liði en hann hefur síðustu ár verið við æfingar með öðrum landsliðum. Hann sagðist vera mjög spenntur fyrir framhaldinu og hlakka til næstu æfingar sem verður um miðjan oktober. Þá mun Sindri Pálsson úr Breiðabliki bætast í hópinn með þeim Skafta, Bjögga og Jame og eiga þeir síðan eftir að vera saman til vors.