Skemmdir á skíðaleiðum

Nokkuð hefur borið á því í vetur að ekið hefur verið upp í troðnar skíðabrekkur á skíðasvæði Dalvíkinga. Þetta athæfi er að sjálfsögðu stranglega bannað og eini aksturinn sem leyfilegur er á svæðinu er umferð snjótroðara og snjósleða skíðasvæðisins. Öll önnur umferð vélknúinna farartækja er stranglega bönnuð í fólkvangnum. Um helgina ók ungur ökumaður upp skíðabrekkurnar og spólaði þær upp og að endingu festi hann bifreiðina hátt uppi í fjalli og varð að nota snjótroðara við að losa bílinn sem sat kyrfilega fastur. Þá hafa einnig tvö fjórhjól ekið upp um allar brekkur og um skíðagöngubrautina og valdið miklum skemmdum á þeim leiðum. Svona háttsemi kostar skíðafélagið heilmikla vinnu og peniga við að laga brautirnar auk þess sem þetta geta orðið alvarlegar slysagildrur í skíðaleiðum. Skíðafélagið óskar eftir því að þeir sem hafa iðkað þennan akstur láti af þeirri iðju og jafnframt óskar Skíðafélagið þess að verði fólk vart við svona athæfi þá láti það lögregluna og starfsmenn skíðasvæðisins vita af því. Allur akstur á svæðinu verður kærður til lögreglu.