Skíðafélag Dalvíkur 30 ára í dag.

Í dag 11. nóvember eru liðin 30 ár frá stofnun Skíðafélags Dalvíkur. Haldið verður upp á þessi tímamót með ýmsum hætti s.s. útgáfu blaðs sem kemur út í vikunni og myndasýningu í Brekkuseli laugardaginn 16. nóvember en þann dag býður Skíðafélagið upp á afmæliskaffi í Brekkuseli frá kl. 14:00-17:00 og eru allir velkomnir. Stefnt er að því að birta blaðið á tölvutæku formi hér á heimasíðunni á næstu vikum. Fjölmargir pennaliprir aðilar hafa lagt efni til blaðsins auk þess sem í því mun birtast opnuviðtal við Jón Halldórsson og Þorstein Skaftason en þeir voru á meðal stofnfélaga félagins og hafa síðan þá lagt á sig þrjátíu ára þrotlaust starf við uppbyggingu félagsins. Í tilefni afmælisins hefur einnig verið útbúin barmnæla með merki félagsins og munu félagar í Skíðafélaginu ganga í hús í næstu viku og falbjóða gripinn. Þeir sem fara á mis við sölufólk og/eða búa utan Dalvíkurbyggðar geta orðið sér úti um afmælismerkið með því að senda tölvupóst með upplýsingum um nafn og númer á eftirfarandi póstfang: skidalvik@skidalvik.is