23.02.2006
Eins og flestir vita stóð Skíðafélag Dalvíkur í ströngu í haust við uppsetningu á búnaði til snjóframleiðslu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að án snjóframleiðslunnar væri fjallið ekki opið til skíðaiðkunar þessa dagana.
Í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem íslenskir vetur eru farnir að bjóða uppá í seinni tíð, hefur stjórn Skíðafélags Dalvíkur tekið ákvörðun um að tvöfalda framleiðslugetu kerfisins með kaupum á tveimur snjóbyssum til viðbótar við þær tvær sem keyptar voru í upphafi. Með þessu næst einnig mun betri nýting á þeirri orku sem þarf til framleiðslunnar þar sem kostnaðurinn við að keyra fjórar byssur er sáralitlu meiri en við að keyra tvær byssur. Þetta skýrist af því að dælurnar sem dæla vatninu að byssunum eru sá hluti kerfisins sem notar mesta orku og þarf sömu orku til að keyra þær, hvort sem við kerfið eru tengdar tvær eða fjórar byssur. Þetta þýðir að u.þ.b. tvöfalt meiri snjór verður til við notkun á orkunni.
Þegar aðstæður verða erfiðar kemur það fljótt fram í minni iðkendafjölda og viljum við reyna að sporna við brottfalli úr íþróttinni með þessum aðgerðum. Það er von okkar að með þessari viðbót megi tryggja að hægt verði að stunda skíðaíþróttina með sama krafti og verið hefur á Dalvík í gegnum árin, en sem dæmi um þann kraft má nefna að Skíðafélag Dalvíkur á tvo af fimm keppendum Íslands á vetrarólympíuleikunum í Tórinó sem nú standa yfir.