Skíðafólkið bætir stöðu sína á heimslista Alþjóða skíðasambandsins.

Á nýjasta heimslista Alþjóða skíðasambandsins FIS má sjá að þau Dagný Linda Kristjánsdóttir, Björgvin Björgvinsson og Kristinn Ingi Valsson sem skipa A landslið Íslands í Alpagreinum skíðaíþrótta hafa öll bætt stöðu sína á listanum. Dagný hefur bætt stöðu sína í greinunum öllum, svigi, stórsvigi. risasvigi og bruni. Hún færist úr 117. sæti í það 114. í bruni og úr 134. sæti í risasvigi í það 126. en þetta eru hennar sterkustu geinar. Björgvin heldur 105. sætinu á heimslistanum sem er athyglisverður árangur í ljósi þess hversu neðarlega hann er kominn á listann því mjög erfitt er að halda þssari stöðu. Í stórsvigi bætir hann stöðuna um 20 sæti eða 138. í 118. sæti. Kristinn Ingi færist úr 169. sæti í það 161. í svigi og 596. í 522. sæti í stórsviginu. Þessi lækkun á heimslistanum hefur gríðarmikla þýðingu fyrir skíðafólkið að því leiti að þau fá lægri rásnúmer í keppnum sem gefur þeim auknar líkur á að ná góðum árangri. Dagný æfir í vetur með sænska landsliðinu og mun hún taka þátt í hraðagreinunum risasvigi og bruni á öllum Heimsbikarmótum vetrarins en þau hefjast í Lake Louise í Kanada 28. nóvember. Karlaliðið er við æfingar með Pavel Cebulj landsliðsþjálfara í Austurríki og styttist óðum í að keppnistímabilið hefjist hjá þeim. Björgvin mun taka þátt í opnunarmóti Heimsbikarsins sem verður í Sölden í Austurríki 29. október og er ætíð mikil spenna þar að fylgjast með hvernig skíðafólkið kemur undan sumrinu. Í febrúar verður Heimsmeistaramótið í Alpagreinum haldið í Are í Svíþjóð og verða Dagný, Björgvin og Kristinn þar á meðal keppenda og jafnvel fleiri ungir og efnilegir skíðamenn.