23.12.2006
Skíðasamband Íslands tilkynnir hér um val á skíðamanni og konu ársins 2006. Fyrir valinu hafa orðið þau Björgvin Björgvinsson frá Dalvík og Akureyringurinn Dagný Linda Kristjánsdóttir. Þau hafa skarað nokkuð framúr öðrum íslenskum skíðamönnum á því ári sem er að líða og má þar nefna góðan árangur þeirra á Ólympíuleikunum í Tórínó í febrúar s.l. þar sem þau náðu bæði í 23. sæti, Dagný í bruni og risasvigi en Björgvin í svigi.
Björgvin Björgvinsson byrjaði síðasta tímabil glæsilega með því að verða Eyjaálfumeistari en sú mótaröð fór fram í Nýja Sjálandi og Ástralíu. Hann stóð sig frábærlega í sviginu á Ólympíuleikunum í Tórínó og náði þar 23. sætinu. Björgvin náði 13 sinnum að vera á meðal 10 efstu manna á alþjóðlegum mótum í Evrópu og N-Ameríku og hann varð svo þrefaldur Íslandsmeistari á Skíðalandsmótinu á heimavelli hans, Dalvík.
Björgvin hefur byrjað nýtt tímabil glæsilega og sigraði á alþjóðlegu stórsvigsmóti í Noregi nú í desember og varð annar í öðru slíku móti á sama stað.
Dagný Linda Kristjánsdóttir kom úr erfiðum meiðslum á haustdögum 2005. Þessi meiðsl höfðu haldið henni frá skíðabrekkunum í nærri tvö ár en hún kom tvíefld til baka og náði frábærum árangri á Ólympúleikunum í Tórínó þar sem hún sannaði að hún er á meðal bestu skíðakvenna í hraðagreinunum risasvigi og bruni. Dagný náði átta sinnum að verða á meðal 10 efstu kvenna á alþjóðlegum skíðamótum víðsvegar um heiminn og síðasta tímabil endaði hún með þreföldum Íslandsmeistaratitli á Skíðalandsmótinu sem fram fór á Dalvík. Hún hóf svo nýtt keppnistímabil með þátttöku í heimsbikarmótum í Lake Louise í Kanada í byrjun desember þar sem hún náði best í 37. sæti í risasvigi og í þessari viku hefur hún tekið þátt í heimsbikarmótum í Val d´Isere þar sem hún náði m.a. 36. sæti í bruni.
Skíðafélag Dalvíkur óskar þeim til hamingju.