02.02.2002
Skíðasvæðin á Dalvík, Ólafsfirði og í Hlíðarfjalli hafa komist að samkomulagi um að selja vetrarkort sem gildir á skíðasvæðin þrjú.
Með þessu vilja rekstraraðilar þessara svæða sýna samstöðu og gera fólki kleift að fara milli svæða á sama passanum.
Það eru ekki nema 45 minutna akstur frá Ólafsfirði til Akureyrar og þar á milli er skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli við Dalvík. Það er mat þeirra sem að þessu standa að þarna sé sýnt fram á hvað Eyjafjörður er sterkt svæði þegar skíðaíþróttin er annars vegar. Samstarf þessara svæða eykst ár frá ári og svæðin bakka án efa hvort annað upp með öllum stærðum og gerðum af skíðabrekkum og góðri aðstöðu til að fara á gönguskíði. Við hvetjum alla sem vilja hafa þennan möguleika að kaupa sér passa á öll svæðin. Skíðafélag Dalvíkur hvetur alla í Dalvíkurbyggð til að versla passan á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli. Passinn er einnig seldur á skíðasvæðinu Tindaöxl í Ólafsfirði og í Hlíðarfjalli. Þeir sem þegar hafa keypt sér vetrarkort geta bætt þessum möguleika við og gert það á einhverju svæðanna þriggja. Verðin eru 16.000 fyrir fullorna og 9.500 fyrir börn.