28.08.2007
Á stjórnarfundi Skíðasambands Íslands í gær var tekin sú ákvörðun að gera þá tilraun að flytja skrifstofu SKÍ til Akureyrar. Flutningurinn hefur verið til umræðu um nokkurt skeið en fyrr í sumar settu forsvarsmenn Akureyrarbæjar sig í samband við okkur og buðu okkur aðstöðu á Akureyri. Eftir nokkra umhugsun ákáðum við að þiggja þetta boð. Margar ástæður eru fyrir þessari niðurstöðu okkar en helstar má nefna.
Í fyrsta lagi er Akureyri að vissu leiti miðstöð skíðaíþróttarinnar á Íslandi, en þar er staðsett Veraríþróttamiðstöð Íslands. Það er því kannski rökrétt að höfuðstöðvar okkar séu þar. Fleiri skíðasambönd hafa prufað þetta og t.d. má geta þess að sænska skíðasambandið hefur flutt höfuðstöðvar sínar frá Stokkhólmi til Falun og það hefur gefist vel. Í öðru lagi hefur Akureyrarbær komið myndarlega að verkefninu. Þau hafa boðið okkur að vera í sama húsnæði og starfsmaður ÍSÍ á Akureyri auk þess að veita okkur aðstöðu til æfinga og námskeiðshalds í fjallinu. Mun þessi ráðstöfun hafa í för með sér umtalsverðan sparnað fyrir SKÍ auk þess sem að við teljum okkur geta sinnt betur námskeiðshaldi og þjálfun landsliðsfólks okkar á öllum aldri.
Í þriðja lagi teljum við að auðveldara sé að finna starfsmann á Akureyri sem hentar starfseminni. Hér í Reykajvík höfum við átt við það að glíma að starfsmenn okkar stoppa stutt. Er það von okkar að hugsanlega sé hægt að finna starfmann á Akureyri sem gæti hugsað sér þetta sem starf til lengri tíma, þó að ekkert sé öruggt í því.
N.k. miðvikudag verður starfið auglýst í bæjarblöðum á Akureyri og í framhaldi af því verður formlegum flutningi fundinn farvegur. Stefnt er að því að opna skrifstofuna með formlegum hætti föstudaginn 19 október n.k. með smá móttöku þar sem gaman væri að sjá sem flesta. Daginn eftir er fyrirhugað að halda Formannafund SKÍ á Akureyri. Sömu helgi fer einnig fram á Akureyri alþjóðlegur fundur eftirlitsmanna í alpagreinum
Daníel Jakobsson, formaður