23.06.2006
Í dag er Skíðasamband Íslands 60 ára en það er næst elsta sérsamband innan vébanda ÍSÍ, stofnað 23. júní 1946. Vil ég nota tækifærið og óska öllum skíðamönnum til hamingju með daginn.
Á svona tímamótum er hefð fyrir því að líta yfir farinn veg og reyfa söguna. Þó svo að nægt efni sé til í slíkan pistil langar mig á þessum tímamótum að horfa til framtíðar að þessu sinni. Mikilvægt er að huga að því hvað hægt sé að gera til að efla íþróttina enn frekar, fjölga iðkendum og gera hana fýsilegri í samkeppni við aðra afþreyingu.
Helsta verkefni Skíðasambandsins og skíðafélaga um land allt hefur verið að hlúa að og þjálfa keppendur í skíðaíþróttinni og standa fyrir mótum fyrir þá. Það verkefni á traustar rætur í hreyfingunni og leysir hún það verkefni vel af hendi. Hin síðari ár hefur keppendum fækkað samhliða auknum kostnaði við íþróttina, snjóleysi og samkeppni við aðrar íþróttir sem margar hverjar eru iðkaðar allt árið um kring. Því er mikilvægt fyrir okkur að huga að framtíðinni.
Meiri snjó!
Að mínu mati þurfum við í fyrsta lagi að bæta aðstæður til skíðaiðkunnar í landinu. Í fyrra voru stigin mikilvæg skref í snjóframleiðslu bæði á Akureyri og á Dalvík. Í vetur mun svo Sauðárkrókur bætast við. Mikilvægt er að fjölga stöðum sem bjóða upp á snjóframleiðslu sem og bæta við þau snjóframleiðslukerfi sem nú þegar eru til staðar. Jafnframt þarf að koma upp fleiri girðingum til snjósöfnunnar en þær hafa gefið góða raun bæði meðfram skíðagöngubrautum sem og skíðabrekkum. Með því að bæta þessa tvo þætti verður hægt að tryggja samfellda opnun skíðasvæða frá miðjum nóvember til loka apríl um allt land. Takist það mun sjálfkrafa verða mikil aukning í skíðaiðkun landsmanna og fýsilegra verður fyrir sveitarfélög að halda áfram uppbyggingu skíðasvæða samhliða aukinni notkunn mannvirkja. Mikilvægt er að aðildarfélög SKÍ, sem eru málsvarar skíðaíþróttarinnar á hverjum stað þrýsti á um þessi málefni á sínu heimasvæði.
Einnig er mikilvægt að horfa lengra fram í tímann og halda áfram að þróa hugmyndir um að koma upp skíðahúsi í útjaðri höfðuborsvæðisins. Skíðasambandið er byrjað að kanna fýsileika slíkrar framkvæmdar og lofa fyrstu niðurstöður góðu. Er ég sannfærður um að það sé raunhæfur kostur og er þetta án efa mikilvægasta málefni skíðahreyfingarinnar næstu árin.
Aukin áhersla á almenning
Skíðafélög í landinu þurfa að fara að huga meira að þjónustu við hinn almenna skíðamann. Efla þarf skíðaleigur, fjölga skíðanámskeiðum fyrir aðra en keppnismenn og börn og vinna markvisst að því að gera skíðasvæði meira aðlaðandi fyrir hinn almenna skíðamann. Er ég þar m.a. að hugsa um merkingar á skíðasvæðum, veitingaðstöðu, troðslu og aðrar uppákomur á svæðunum. Jafnframt þarf að huga að mótum fyrir almenning t.d. almenningsbrun eins og vinsælt er erlendis, samhliðasvig á góðviðrisdögum o.s.frv.
Hugsanlega þarf einnig að þrýsta á sveitarfélög að skoða þá möguleika að fá einkaaðila til að taka að sér að sér að reka skíðasvæðin fyrir sveitarfélögin. Þannig myndi verða meiri hvati fyrir rekstraraðila að fá fólk í fjallið sem væntanlega myndi skila sér í enn betri þjónustu við skíðamenn.
Fleiri framúrskarandi skíðamót.
Skíðafélögin í landinu standa fyrir fjöldanum öllum af skíðamótum. Að mínu mati þarf að efla mótahald enn frekar, sérstaklega í barna og unglingaflokkum. Það er fyrir þessi mót sem skíðakrakkar æfa. Horfa þarf þarna til annnarra íþtóttagreina s.s. knattspyrnu sem og vel heppnaðra skíðamóta s.s. Andrésar Andarleikanna. Þar er mikið lagt upp úr umgjörð mótanna. Mótin eiga að vera fjölskylduskemmtun sem snýst um svo margt annað en íþróttakeppnina sjálfa. Þó að Andrésar Andarleikarnir verði áfram gæsilegasta barnamót okkar tel ég að önnur félög eigi að fara svipaða leið og Akureyringar. Ekki þyrftu öll félög að vera með alla flokka eða öll héruð. Veturinn er langur og nægur tími er fyrir fleiri mót. Sérstaklega finnst mér að skíðafélög á höfuðborgarsvæðinu ættu að skoða þennan kost.
Einnig tel ég vert að skoða hvort heppilegra væri að fækka barna og unglingamótum og auka í stað gæði þeirra og fjölga keppnisdögum. Þannig væri auðveldara að leggja meira í umrædd mót. Allavega tel ég mikilvægt að útrýma "lélegum" mótum. Það á ekki að bjóða iðkendum upp á mót án umgjarðar. Slík mót eru til þess fallin að fæla keppendur frá íþróttinni.
Einnig þarf að huga vel að Skíðamóti Íslands og Unglingameistarmóti Íslands. Þessi mót þurfa að fá andlitslyftingu þó vissulega hafi oft verið vel að þeim staðið. Fjölga þarf viðburðum sem eru ekki tengdir skíðum og eru til þess fallnir að fá fleira fólk á mótsstað auk þess að leggja meiri áherslu á að gera íþróttina sjónvarpsvæna.
Ef okkur tekst að koma ofangreindum málum áleiðis er ég sannfærður um að okkar bíði bjartir tímar. Því er mikilvægt að hreyfingin vinni öll í sömu átt að sömu markmiðum.
Að lokum vill ég f.h. Skíðasambandsins þakka öllum þeim sem lagt hafa skíðaíþróttinni lið s.l. 60 ár og vona bara að næstu 60 ár verði jafn góð.
Daníel Jakobsson, formaður.