21.05.2007
Daníel Jakobsson var endurkjörinn formaður Skíðasambandsins á Skíðaþingi 2007 var haldið í Reykjavík um helgina.
Tvær breytingar urðu á stjórnarskipan á þinginu, Ómar Kristjánsson og Kristín Eggertsdóttir gengu úr stjórn og í þeirra stað voru kjörin Óskar Garðarsson og Þórunn Sif Harðardóttir. Ólafur Rafnsson forseti og Friðrik Einarsson úr Framkvæmdastjórn ávörpuðu þingið fyrir hönd ÍSÍ.
Á síðastliðnum árum hefur tekist að snúa rekstri sambandsins á réttan kjöl og varð hagnaður af rekstri sambandsins á síðastliðnu reikningsári um ein milljón króna.
Fremur fáar tillögur lágu fyrir þinginu að þessu sinni en á meðal breytinga sem gerðar voru má nefna reglugerðarbreytingu varðandi úthlutun á Skíðamóti Íslands og Unglingameistaramótinu þar sem nú eru settar meiri kröfur á mótshaldarana varðandi umgjörð mótanna. Þá var einnig samþykkt að koma á mótaskrá yfir öll opin skíðamót sem haldin eru á landinu.
Stefnumótum til framtíðar var eitt aðalverkefna þingsins að þessu sinni og var henni stýrt af fulltrúa frá Capacent ráðgjöf og á þinginu var kjörin nefnd til að halda þeirri vinnu áfram.
Daníel þakkaði fyrir sig í lokaræðu þingsins og hvatti skíðafélögin í landinu til samstöðu um uppbyggingu skíðasvæða landsins og þar sem snjóframleiðsla er þegar er fyrir hendi á nokkrum skíðasvæðum og í undirbúningi á öðrum svæðum þá væri lag að snúa úr vörn í sókn og fjölga skíðaiðkendum á Íslandi.