02.06.2004
Aðalfundur Skíðafélags Dalvíkur var haldinn 26. 05. 2003. Eftirtaldir aðilar voru kosnir í stjórn félagsins fyrir starfsárið 2003-2004. Óskar Óskarsson formaður, Bjarni Valdimarsson varaformaður, Eva Guðmundsdóttir gjaldkeri, Valdís Guðbrandsdóttir ritari og Elsa Benjamínsdóttir meðstjórnandi. Varastjórn skipaði Marsibil Sigurðardóttir, Brynjólfur Sveinsson og Þorsteinn Björnsson.
Þá voru þeir Þorsteinn Skaftason og Brynjólfur Sveinsson í svæðisnefnd. Í alpagreinanefnd voru Daði Valdimarsson, Elsa Benjamínsdóttir, Jóhann Bjarnason, Jóhanna Skaftadóttir og Valdís Guðbrandsdóttir. Þá starfaði foreldrafélagið eins og undanfarin ár og í því eru Marsíbil Sigurðardóttir, Hildur Birna Jónsdóttir, Jóhann Bjarnason, Bjarni Valdimarsson og Arna Stefánsdóttir.
Eins og kom fram í skýrslu fyrir starfsárið 2002-2003 þá var skíðavertíðin árið 2003 okkur mjög erfið út af snjóleysi sem leiddi af sér erfiða peningastöðu í lok vertíðar. Við stóðum frammi fyrir því að tekjur af rekstrinum voru langt undir því sem við þurftum til að endar næðu saman miðað við framlag Dalvíkurbyggðar og ljóst að við stæðum ekki undir rekstrarkostnaði svæðisins. Ætla má að um tvær milljónir hafi tapast í tekjum þennan vetur vegna snjóleysisins.
Þegar síðan kom í ljós að skuldir umfram það sem við réðum var um 1.3 miljónir króna þá var ekkert annað í stöðunni en að leita á náðir Dalvíkurbyggðar um aðstoð því ekki var um annað að ræða þar sem félagið má ekki frekar en önnur félög stofna til skulda af nokkru tagi án vitundar Dalvíkurbyggðar.
Ekki stóð á viðbrögðum frá Dalvíkurbyggð sem kom okkur til aðstoðar og lagði fram rúma eina milljón og með því var hægt að greiða niður allar skuldir og þökkum við Dalvíkurbyggð fyrir þá dyggu aðstoð.
Þessi staða í peningamálum okkar leiddi af sér að ekki var farið í neinar framkvæmdir né viðhald á svæðinu þetta sumar og haust. Engu að síður lágu fyrir mörg verkefni og sum hver mjög nauðsynleg en þeim var öllum frestað vegna peningaleysis.
Sumarið og haustið leið án nokkurra framkvæmda á svæðinu sem ekki má endurtaka sig því viðhaldsverkefnin hverfa ekki, þau aukast ef ekkert er gert á hverju sumri. Okkur tókst að klára árið án frekari peningavandræða og rættist nokkuð úr stöðunni síðastliðið haust þegar okkur tókst að opna svæðið í 17 daga og með því ná okkur í ágætis tekjur með sölu dagskorta fram að áramótum.
Á árinu 2003 rann samningurinn út milli félagsins og Dalvíkurbyggðar og hann þurfti að endurnýja. Sú vinna hófst á haustdögum og tók ekki langan tíma. Íþrótta- æskulýðs og menningarmálanefnd og fulltrúar stjórnar félagsins sem voru Óskar Óskarsson, Bjarni Valdimarsson og Þorsteinn Skaftason hittust á tveimur formlegum fundum og eftir það lá fyrir tillaga sem allir sættust á. Tillagan fór síðan sína leið í bæjarkerfinu og var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi í janúar síðast liðnum.
Fallist var á rök okkar að mestu leyti um þá hækkun sem við töldum að til þyrfti að koma, þó ekki 100% en við erum mjög sátt við niðursöðuna á nýja samningnum sem er til og með árinu 2006. Á þessu ári fáum við 5 milljónir króna, 5,2 á árinu 2005 og á árinu 2006 fær félagið 5.3 milljónir króna. Þessar upphæðir eru grundvöllur þess að félagið rekur svæðið áfram því að á hverju ári eykst veltan og rekstur félagsins verður umsvifameiri.
Félagsstarfið var í rólegri kantinum fram í nóvember því engar skipulagðar æfingar voru á vegum félagsins og ástæðan sú að óvenju fáir voru á heimaaslóðum úr eldra liði okkar. Yngri krakkarnir voru á æfingum með frjálsíþróttafólki eins og síðasta haust og gafst það vel.
Þó svo að fáir af okkar eldra liði séu ekki í þjálfun hjá félaginu þá eru þeir undir handleiðslu annarra þar sem þau eru við æfingar. Snorri Páll Guðbjörnsson hefur æft með afrekshóp Skíðafélags Akureyrar síðastliðin tvö ár og í vetur var Kári Brynjólfsson einnig þar við æfingar. Íris Daníelsdóttir hefur ekkert getað æft í vetur vegna meiðsla en hún hefur verið í afrekshópnum síðastliðin tvö ár. Kristinn Ingi Valsson er að ljúka námi í Oppdal í Noregi þar sem hann hefur dvalið síðastliðin tvö ár. Björgvin Björgvinsson æfði með landsliðinu sem hafði aðsetur í Noregi en var við æfingar og keppni viðsvegar um Evrópu. Allir þessir aðilar eru í landsliðum SKI.
Skafti Brynjólfsson æfði með landsliðshópnum fram eftir vetri en varð að draga sig í hlé vegna meiðsla sem voru að plaga hann meira og minna í allan vetur.
Þá tók Kristinn Ingi Valsson þátt í Heimsmeistaramóti unglinga sem fram fór í Slóvakíu um miðjan febrúar.
Æfingar hófust að fullum krafti hjá félaginu í byrjun janúar undir stjórn Guðnýjar Hansen sem var þjálfari félagsins í vetur og hafði hún Jóhann Bjarnason sér til aðstoðar þar sem mikill fjöldi barna og unglinga stundar skíði hjá félaginu. Fyrstu æfingar vetrarins voru 5. janúar sem er eins og við viljum hafa það. Eins og þetta hefur verið nokkur undanfarin ár þá hefur okkur ekki tekist að hefja æfingar vegna snjóleysis fyrr en töluvert seinna. Haldin voru tvö byrjendanámskeið í vetur, annað fyrir börn á aldrinum 5-6 ára og voru 20 börn sem mættu á mámskeiðið. Hitt námskeiðið var fyrir 4 ára börn og þar voru 7 börn sem tóku þátt. Á hefðbundnum æfingum hjá félaginu voru um 90 börn og unglingar og samtals gera þetta tæplega 120 þátttakendur sem stunda æfingar hjá félaginu. Guðný hefur nú endurnýjað samning sinn til eins árs og mætir til leiks í byrjun desember þegar fyrirhuguð ferð elsta æfingaliðsins til Noregs verður farin. Endurráðning Guðnýjar er okkur mjög mikilvæg þar sem hún hefur sannað það hversu góður þjálfari og kennari hún er.
Mótahald vetrarins var með hefðbundnu sniði og tókst að halda öll innanfélagsmótin ásamt einu bikarmóti í flokki 15 ára og eldri. Hér stóð síðan til að halda annað bikarmót í flokki 13-14 ára en því var aflýst á síðustu stundu vegna óviðráðanlegra ástæðna.
Jónsmótið fór fram helgina 12.-13. mars og var það lang stærsta frá upphafi. 170 krakkar alls staðar af landinu mættu til leiks og kepptu á þessu óhefðbundna skíðamóti sem saman stendur af skíðum og sundi. Mikil ánægja var með mótið og teljum við að nú hafi okkur tekist að ná markmiði okkar með þessu móti en það er að halda stórmót á landsvísu fyrir börn á aldrinum 9 - 12 ára.
Það voru síðan 53 börn frá félaginu sem tóku þátt í Andrésar Andarleikunum sem haldnir voru í Hlíðarfjalli við erfiðar aðstæður. Mótshaldið gekk þrátt fyrir það ágætlega á þessu langstærsta skíðamóti sem haldið er hér á landi og er skíðaíþróttinni afar mikilvægt. Árangur okkar fólks var með ágætum og komu krakkarnir með 18 verðlaun heim, þar af eignuðumst við einn Andrésarmeistara sem var Hjörleifur Einarsson.
Þá tóku eldri keppendur okkar þátt í bikarmótaröð Skíðasambandsins í vetur og stóðu sig vel að vanda. Mótunum hjá þeim lauk síðan með Skíðamóti Íslands og FIS mótum sem halda átti á Ísafirði en mótin varð að færa til Siglufjarðar vegna snjóleysis á Ísafirði. Árangur okkar fólks á þessum mótum var mjög góður þar sem Kristinn Ingi Valsson stóð sig best af okkar fólki. Á þessum mótum voru mættir nokkrir sterkir erlendir keppendur sem gerðu það að verkum að mótin voru sterk og okkar fólki tókst að bæta punktastöðu sína verulega. Af keppnum erlendis er það að segja að okkar fólk tók þátt í mjög mörgum FIS mótum í vetur þar sem flestir náðu að bæta punktastöðu sína sem kom þeim síðan til góða á FIS mótunum hér heim. Siglfirðingar héldu síðan Unglingameistaramót Íslands í Skarðsdal og þar áttum við einn keppanda.
Starfsemin á svæðinu gekk ágætlega og aðsókn á skíðasvæðið var góð frá upphafi þrátt fyrir að aðstæður hafi verið misjafnar í allan vetur.
Eins og áður hefur komið fram þá snjóaði nokkuð í nóvember sem dugði til þess að opna skíðasvæðið og var opið í rúmar tvær vikur fyrir áramót. Þessum snjó héldum við að mestu leyti fram á nýtt ár og dugði það til þess að svæðið opnaði strax á nýju ári. Veturinn var nokkuð kaflaskiptur og segja má að allur sá snjór sem í fjallinu var í vetur hafi komið um mánaðarmótin janúar-febrúar í nokkurra daga stórhríð en þegar henni lauk tók við hlýindakafli sem stóð til vors. Þrátt fyrir þetta er skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli með lang flesta opnunardaga af öllum skíðasvæðum á landinu þrátt fyrir að vera með neðsta hluta svæðisins í aðeins 45 metra hæð yfir sjó og ná aðeins upp í 320 metra hæð. Opnunardagar á skíðavertíðinni voru 120 talsins sem er 80 dögum fleiri dagar en á síðustu skíðavertið og var aðsóknin á svæðið góð á meðan aðstæðurnar voru sem bestar. Seld voru um 230 árskort sem er það lang besta í nokkuð mörg ár. Svæðið var opið daglega og um það bil 6 tíma að jafnaði á dag. Hingð komu fjölmargir hópar á skíði eins og undanfarin ár þegar aðstæður hafa leyft og eru sumir hóparnir að koma til okkar ár eftir ár þvi hingað þykir afar hagstætt að koma vegna nálægðarinnar við alla þómustu og ekki skemmir fyrir að geta gist nánast í skíðabrekkunni.
Starfsmenn svæðisins voru þrír, Einar Hjörleifsson sem var svæðisstjóri og vinnur í sex mánuði á svæðinu, Jón Halldórsson og Kristín Júlíusdóttir sem sá um rekstur Brekkusels ásamt fleiru, þau unnu í fjóra mánuði í vetur. Það kom vel í ljós í vetur að umsvif á rekstri svæðisins eykst ár frá ári og þurfti að ráða aukamannskap á mesta álagstímanum og fram yfir páska. Í vetur minnti snjótroðarinn verulega á það að hann er komin til ára sinna og þarfnast endurnýjunar mjög fljótlega. Kostnaður vegna bilanna var þó í lægri kantinum miðað við mörg síðastliðin ár eða um 700.000 krónur. Síðastliðin fjögur ár hafa því farið um 5 milljónir í bilanir og viðhald á honum.
Um páskana er oft margt um manninn í Böggvisstaðafjalli og í ár vildum við taka vel á móti þeim sem hingað koma á skíði og efndum til páskadagskrár. Þetta var gert í samvinnu við Dalvíkurbyggð og nokkra aðila hér í byggð ásamt Skíðafélagi Ólafsfjarðar sem kom inn í verkefnið rétt áður en undirbúningi lauk og var félagið með afþreyingu tengda gönguskíðum. Júlíus Júlíusson var fenginn til að sjá um verkefnið og var sett upp dagskrá sem fór að mestu fram á skíðasvæðinu. Auk hefðbundinna atriða á skíðasvæðinu voru alls kyns uppákomur sem gestum líkaði vel en það var að stærstum hluta aðkomufólk. Einhverra hluta vegna sáu ekki nema örfáir heimamenn sér ástæðu til að koma á skíði um páskadagana og njóta dagskrárinnar en hver ástæðan var er ekki gott að vita. Það komu rétt um 1500 manns á skíði páskadagana sem við vorum nokkuð sátt með þó svo að við hefðum viljað sjá fleiri en huggum okkur við það að aðsókn á skíðasvæðin sem voru opin yfirleitt var í lágmarki. Við teljum að dagskrá sem þessi um páska sé komin til að vera og stefnum á að gera slíkt hið sama að ári, reynslunni ríkari og vonandi með fleiri aðila sem vilja taka beinan þátt í að beina ferðafólki í Dalvíkurbyggð að vetrarlagi, ekki veitir af.
Rekstrarfyrirkomulag svæðisins er að mati stjórnarinnar í góðum farvegi miðað við stærð þess og það fjármagn sem við höfum úr að moða. Eins og áður hefur komið fram eru umsvif rekstursins að aukast ár frá ári og álag á stjórnarliða því meira en áður og vart hægt að ætlast til að allir hlutir séu unnir í sjálfboðavinnu eins og tíðkast hefur. Því hefur sú umræða sem reglulega hefur verið í gangi síðustu ár um að breyta starfssviði yfirmanns svæðisins, verið í stjórninni síðustu vikur og í því sambandi talað um að gera starfið að heilsársstarfi í samstarfi við aðra sem gætu nýtt okkar starfsmann í 2-3 mánuði utan skíðavertíðar. Þetta þýddi að á skíðasvæðinu yrði starfsmaður í 8 mánuði á ári í stað 6 eins og nú og hæfi störf í september í stað nóvember. Þessi aðili yrði með verkefni sem myndu létta á stjórnendum félagsins og jafnvel sinna Brekkuseli yfir sumarið en þar teljum við vera ónýtta tekjumöguleika í sambandi við gistingu og fleira. Ákvörðun um þessi mál verður tekin í byrjun júní í síðasta lagi.
Í sumar liggur fyrir nokkurt viðhald á svæðinu bæði á lyftum og Brekkuseli þar sem engar framkvæmdir voru síðastliðið sumar. Þá þarf að huga að viðhaldi á snjógirðingum og öðrum mannvirkjum á svæðinu.
Umræður um byggingu troðarageymslu sem við höfum lagt mikla áherslu á að byggð verði sem fyrst tóku mjög jákvæða stefnu þegar gerð fjárhagsáætlunar var í gangi. Þar var gert ráð fyrir 3 milljónum til að hægt yrði að hefjast handa á árinu 2004. Það fór síðan þannig að bæjarstjórn samþykkti að leggja þá upphæð í verkefnið sem er stórt skref því við höfum lengi beðið eftir því að hús verði byggt yfir troðarann sem nýttist sem geymsla samhliða því. Þessa dagana er verið að gera kostnaðaráætlanir og tillögur að húsgerð eru einnig til athugunar. Líklegt er að húsið verði reist norðan við Brekkusel því við höllumst að því að þar verði hagkvæmast að byggja það. Húsið verður 250 fermetrar og kemur til með að kosta 15-17 milljónir fullbúið.
Fleira jákvætt er að gerast tengt svæðinu því í sumar verður byggður nýr vegur með bundnu slitlagi að skíðasvæðinu. Samhliða verður gert bílastæði neðan við Brekkusel sem mun gjörbreyta núverandi ástandi sem er ekki gott. Þessu verki á að vera lokið fyrir 1.ágúst. Vegagerð ríkisins annast verkið.
Eins og meðfylgjandi reikningar sýna varð tæplega 600.000 króna hagnaður á rekstrinu á síðasta ári. Skýringin á þessari góðu útkomu má rekja til þess að þegar útkoman af rekstrinum síðastliðið vor var ljós, tók stjórnin þá ákvörðun að vinna að því hörðum höndum að rétta reksturinn við og framkvæma ekkert heldur aðeins reyna að komast fram úr vandanum og standa við þær skuldbindbingar sem hvíla á félaginu. Við lögðum mikla áherslu á að fá tekjur af Brekkuseli um sumarið og tókst það mjög vel því sjaldan hafa verið jafn góðar tekjur af leigu á húsinu. Þá komu ágætar tekjur af opnuninni fyrir áramót og síðan af föstum fjáröflunum. Þetta tókst og sýnir að við reynum hvað við getum til að dæmið megi ganga upp.
Stjórn, nefndum, starfsmönnum og öllum sjálfboðaliðum sem eru margir, þökkum við gott samstarf í vetur og einnig þeim fjölmörgu aðilum sem studdu félagið á einn og annan hátt.
Þá viljum við þakka Dalvíkurbyggð fyrir samstarfið á árinu en eins við höfum sagt áður hefur bæjarfélagið staðið vel við bak félagsins eins og annarra félaga hér í byggð síðastliðin ár með samningum við þau til nokkurra ára.
Framlag Dalvíkurbyggðar til íþrótta og æskulýðsmála er að verða til fyrirmyndar á öllum sviðum.
f.h. stjórnar Skíðafélags Dalvíkur
________________________
Óskar Óskarsson
formaður