Snjór fluttur í göngubrautina í allan dag

"Við erum búnir að keyra snjó í göngubrautina í miðbænum í allan dag," sagði Jón Árni Konráðsson, brautarstjóri í göngu á Skíðamóti Íslands. Snjórinn er tekinn úr gili við bæinn Burstabrekku skammt sunnan Ólafsfjarðar og í dag hafa þrír flutningabílar verið í stöðugum snjóflutningum. Allt kapp verður lagt á að um 1 km langur sprettgönguhringur verði klár fyrir fyrstu keppnisgrein landsmótins á morgun, sem hefst samkvæmt dagskrá kl. 17. "Við munum fara í að slétta úr snjónum í kvöld og vonandi mun eitthvað frjósa í nótt," sagði Jón Árni og bætti við að í versta falli myndi verða gengið í að frysta brautina til þess að hafa hana tilbúna. Um staðsetningu á lengri vegalengdunum er ekkert hægt að fullyrða að svo stöddu. Staðan verður endurmetin á morgun, en þá mun Þorsteinn Hymer, eftirlitsmaður Skíðasambandsins, leggja mat á brautina.