23.02.2003
Aðstæður til skíðaiðkunnar í Böggvisstaðafjalli hafa vestnað töluvert í hlákunni síðustu daga. Samt sem áður hefur tekist að hafa svæðið opið nánast alla daga síðan snjórinn lét sjá sig fyrir rúmum mánuði síðan. Opnunardagar svæðisins eru orðnir 37 sem verður að teljast gott miðað við tíðarfar. Æfingar hafa verið samkvæmt æfingatöflu og hefur þátttaka verið mjög góð miðað að snjórinn hefur verið í minna lagi.
Nú er bara að vona að spá Veðurklubbs félaga á Dalbæ standist því í síðustu spá sögðu þeir eftirfarandi:
Veðrið í febrúar getur orðið görugt. Það verður rysjótt, sunnan og norðan átt til skiptis. Snjórinn fær aldrei að tolla almennilega, eða við getum kallað það að bloti inn á milli. Þorratunglið, kviknar 1. febrúar í SA kl 10.48, daginn eftir er Kyndilmessa og stórstreymi þar sem ölduhæðin er 4.1 m. Við eigum ekki von á neinu stórviðri framan af mánuðinum, og jafnvel slampast hann svona fram og til baka út febrúar. Að vísu er möguleiki á að hann komi með sæmilega hugdjarfan skell um miðjan mánuðinn. Við höfum tilfinningu fyrir miklum snjó sem kemur á stuttum tíma, en getum ekki alveg staðsett hann, kannski eins og fyrr er sagt að hann komi um miðjan febrúar, ef ekki þá, aukast líkurnar á að hann bresti á með hundleiðinlegu norðan gjálfri með stóru Gi, 3. mars, er Góutunglið kviknar í NNA.
Eins og þið sjáið er enn von á stórhríð þó svo að hún komi ekki í febrúar samkvæmt nýjustu veðurspá en allavega verðum við að treysta á eitthvað í þessum málum og leggjum við því til að við setjum traust okkar á veðurklúbbinn á Dalbæ og trúum að það komi norðan stórhríð í byrjun mars.