Spáð góðu veðri á morgun

Veðurstofan gerir ráð fyrir ágætis veðri á morgun og því má ætla að aðstæður ættu allar að vera hinar ákjósanlegustu í Ólafsfirði og á Dalvík fyrir keppni á Skíðamóti Íslands á morgun. Spá Veðurstofunnar nú síðdegis er eftirfarandi: Hæg suðlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum vestantil í kvöld, en léttskýjað austanlands. Suðaustan 10-15 og þykknar upp vestantil á morgun og fer að rigna undir kvöld. Austantil verður mun hægari suðlæg átt og skýjað með köflum, en bætir heldur í vind og þykknar upp annað kvöld. Vægt frost norðan- og austanlands í nótt, en annars hiti 3 til 12 stig.