Stjörnuhópur, hvað er nú það?

Í vetur ákvað Skíðafélag Dalvíkur að koma með nýjung í þjálfun og kennslu á skíðum. Sérstakur æfingahópur var settur á laggirnar sem við köllum stjörnuhóp og er markmiðið með honum að mæta þörfum allra sem vilja stunda æfingar hjá Skíðafélagi Dalvíkur. Í þessum hópi eru börn sem vilja æfa 2 sinnum í viku og vilja gjarnan fara hægar yfir en þeir sem stunda æfingar á hefðbundnum æfingatímum. Krakkarnir í stjörnuhópnum eru á aldrinum 9-12 ára og una sér sérstaklega vel í þessu umhverfi þar sem leikir og ýmsar æfingar, bæði hefðbundnar og óhefðbundnar eru hafðar í fyrirrúmi. Með þessu viljum við mæta þörfum allra sem vilja stunda skíðaíþróttina óháð getu og öðru sem veldur því að þessir einstaklingar geta eða vilja ekki stunda íþróttina á fullri ferð en samt sem áður vera með. Krakkarnir taka síðan þátt í öllu félagsstarfi með félaginu eins og aðrir sem æfa með félaginu sem eru um 130 börn og unglingar þennan veturinn. Við teljum að þetta sé mjög góð leið til þess að mæta brottfalli úr íþróttum heilt yfir og skorum á aðra sem vinna með börn og unglinga í íþróttum hvort heldur sem er hópíþrótt eða einstaklingsíþrótt að skoða þennan möguleika vel og bjóða öllum upp á æfingar við sitt hæfi. Einn af þjálfurum félagsinns, Harpa Rut Heimisdóttir íþróttafræðingur sér um stjörnuhópinn og er fús til að gefa upplýsingar um árangurinn og ávinninginn ef þess er óskað.