03.04.2002
Keppni í stórsvigi karla og kvenna verður í Böggvisstaðafjalli á föstudaginn. Þetta var endanlega ákveðið á fundi mótstjórnar Skíðamóts Íslands sem lauk um kvöldmatarleytið í kvöld. Fyrr í dag gerðu menn ráð fyrir að taka endanlega ákvörðun um stórsvigið á morgun, en nú liggur hún sem sagt strax fyrir.
"Það er viss léttir að við höfum tekið þá ákvörðun að halda okkur við að hafa stórsvigið hér heima, því vissulega hefði það verið umtalsvert fyrirtæki að flytja stórsvigið í Hlíðarfjall. Hins vegar þýðir þessi ákvörðun jafnframt að við þurfum að skipuleggja gríðarlega vel allan undirbúning fyrir stórsvigið og mér sýnist ljóst að við verðum að kalla til enn fleiri en við höfðum gert ráð fyrir til þess að rétta okkur hjálparhönd. En ég veit að ekki verður vandamál að kalla fleiri til starfa," segir Óskar Óskarsson, mótstjóri Skíðamóts Íslands.
Það er ljóst að mótshaldarar koma til með að frysta stórsvigsbrautina eftir settum reglum og tryggja þannig að hún verði eins góð og mögulegt er.
Gert er ráð fyrir að stórsvigsbraut karla verði lögð í svokölluðum stórsvigsbakka í Böggvisstaðafjalli, en stórsvigsbraut fyrir konurnar verður í brekkunni nær toglyftunni, beint upp af skíðaskálanum Brekkuseli.