Stórsvigsportin komin á sinn stað

Síðdegis í dag var lokið við að leggja stórsvigsbraut karla í Böggvisstaðafjalli fyrir fyrri ferð stórsvigsins í fyrramálið, en samkvæmt dagskrá á það að hefjast klukkan níu. Björgvin Hjörleifsson, skíðaþjálfari í Ólafsfirði, lagði brautina. Þrátt fyrir að brautin þyldi örlítið meiri snjó á nokkrum stöðum segja þeir sem til þekkja að hún sé prýðilega góð og ef spáin gangi eftir um frost í nótt þurfi ekki að kvarta. Ef hins vegar frystir ekki í nótt verður brautin væntanlega fryst í fyrramálið þannig að aðstæður ættu að verða eins og best verður á kosið þegar keppnin hefst kl. 9 í stórsvigi karla. Áætlað er að fyrri ferð í stórsvigi kvenna hefjist kl. 10.15. Ætlunin er að leggja í brautina síðar í kvöld og mun Gunnlaugur Magnússon, skíðaþjálfari, sjá um brautarlögn.