Styrkir til skíðafólks

Á fundi Íþrótta, æskulýðs og menningarmálanefndar Dalvíkurbyggðar í gær var tekin fyrir beiðni Skíðafélags Dalvíkur um styrki til nokkurra aðila sem eru stunda skíðaíþróttina af krafti. Óhætt er að segja að vel hafi verið tekið í beiðnina því ráðið ákvað að styrkja þau Kristinn Inga Valsson, Snorra Pál Guðbjörnsson, Kára Brynjólfsson, Skafta Brynjólfsson og Írisi Daníelsdóttir um 60.000 hvert eða samtals um 300.000 krónur. Á fundi ráðsins í september var Björgvin Björgvinsson styrktur um 200.000 krónur og því óhætt að fagna því hversu vel er tekið í beiðnir okkar um styrki til afreksfólks Skíðafélags Dalvíkur. Við erum afar þakklát fyrir þessar styrkveitingar og þökkum Íþrótta-æskulýðs og menningarmálanefnd fyrir þennan stuðning. Það þarf engum að koma á óvart að það er gífurlega kostnaðarsamt að vera í skíðaútgerð eins og allir þessir aðilar eru í og félagi eins og Skíðafélagi Dalvíkur afar erfitt að geta ekki styrkt þessa sex aðila nema að litlu leiti. Því koma styrkir eins og þessir sér afar vel.