Sumarið framundan

Mynd: Dagur Óskars.
Mynd: Dagur Óskars.

 

Þá er komið að vertíðarlokum, þrátt fyrir mikil snjóalög og frábærar aðstæður þá er þessum skíðavetri því miður lokið. Nýjar afmarkanir frá sóttvarnarlækni eru eindregið á þá leið að ekki verður möguleiki á að opna frekar. Enn eru fjöldatakmarkanir, 2 m. reglan og notkun á sameiginlegum búnaði bönnuð sem er sú regla sem erfiðast er fyrir okkur að framfylgja.

Það væri möguleiki að framfylgja þessu með krókaleiðum en við teljum það ekki vera í anda þeirrar leiðar sem reynt er að viðhalda í samfélaginu í dag og okkur ekki til framdráttar. Það var vilji skíðafélagsins að reyna við einhverskonar opnun hefði takmörkunum verið aflétt á þá leið en samkvæmt nýjustu fréttum er svo ekki.

Þessi vetur var að mörguleiti erfiður viðureignar, það var lokað vegna veður hátt í 30 daga og muna elstu menn ekki annan eins vindasaman vetur hér í byggð. Þrátt fyrir það náðum við að hafa opið 70 opnunardaga sem er með því mesta miðað við hin skíðasvæðin.
Þá hefur göngubrautin verið geysi vinsæl og margir tekið upp þá iðkun í vetur, enda frábær og holl útivist.

Starfsmenn skíðasvæðisins hafa verið og verða næstu daga að pakka saman fjallinu, taka til og fjarlægja allt laust úr fjallinu. Við munum halda úti göngubrautinni á meðan snjór er í brautinni eða til 30. apríl. 

Í framhaldinu munum við boða til fundar með öllum þeim er notuðu göngubrautina í vetur, það er vilji skíðafélagsins að ýta enn frekar undir áhuga um skíðagönguna sem lýð heilsuverkefni. Það er okkar framtíðarsýn að um brautina myndist hópur sem getur orðið virkur þáttakandi í uppbyggingu og viðhaldi á slíkri braut.
Áætluð tímasetning á þennan fund er 5. maí klukkan 17:00 í Brekkuseli og allir velkomnir.

Með þökk fyrir veturinn: Starfsfólk og stjórn Skíðasvæðisins á Dalvík