Svanhildur Árnadóttir forseti bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar skrifaði eftirfarandi grein í afmælisblaðið.

Hvað er yndislegra en að fara til fjalla þegar tími og veður leyfir. Þeir sem hafa kynnst þeirri dásemd að vera á fjöllum í fögru veðri og góðu skíðafæri, gleyma seint slíkri upplifun. Skíðaiðkun hér á landi á sér langa sögu. En skíði munu hafa verið notuð til samgangna allt frá landnámstíð. Áhugi almennings á skíðaíþrótt hefur aukist jafnt og þétt enda hefur almennur áhugi á líkams- og heilsurækt aukist og fólk gerir sér sífellt betur grein fyrir nauðsyn íþróttaiðkunar og hollrar hreyfingar. Rannsóknir bæði erlendar og innlendar hafa sýnt svo ekki verður um villst að þau ungmenni sem stunda íþróttir eiga síður hættu á að verða fíkniefnum að bráð. Þannig að um ótvírætt forvarnarstarf er að ræða Nú þegar skíðafélag Dalvíkur á þrjátíu ára afmæli er mér sérstakt ánægjuefni að árna félaginu heilla og óska því velfarnaðar um ókomna tíð. Skíðafélag Dalvíkur hefur alltaf átt því láni að fagna að eiga ötula og dugandi forystumenn, sem hafa verið tilbúnir að leggja á sig ómælda vinnu til félagsstarfsins og uppbyggingar í fjallinu. Ég tel ekki að á neinn sé hallað þó ég nefni til sögunnar tvo einstaklinga sem fremstir eru í mínum huga meðal jafningja í starfi félagsins. Jón Halldórsson og Þorsteinn Skaftason voru frumkvöðlar að stofnun félagsins og frá upphafi unnið félagsstarfinu og uppbyggingu og viðhaldi mannvirkja í fjallinu óeigingjarnt starf sem seint verður fullþakkað. Það er ómetanlegur styrkur fyrir sveitafélag að enn skuli vera til fólk sem tilbúið er að leggja fram sjálfboðavinnu í þágu fjöldans. Öllum félagsmönnum skíðafélagsins flyt ég þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag til okkar samfélags sl. þrjátíu ár . Megi framtíðin verða ykkur farsæl og heilladrjúg. Svanhildur Árnadóttir