Þessa frétt er að finna á heimasíðu Skíðafélags Akureyrar. Andrésar Andar leikunum 2003 er aflýst

Andrésar Andarnefndin á Akureyri hefur nú tilkynnt að 28. Andrésar Andar leikunum hefur verið aflýst, í fyrsta skipti í sögunni. Þessi "slæmi" vetur hefur nú endað í allt að 20° hita, sem hefur endanlega eyðilagt allt skíðafæri. Ef fjármagn fæst til að kosta Ítalíu- og Noregsferðir, eru uppi hugmyndir um keppni 1990-árgangsins (12 ára flokks) næsta vetur, en það fer eftir snjóalögum hvort það verður í janúar eða jafnvel ekki fyrr en á Unglingameistaramóti 2004. Þau félög sem greitt hafa skráningargjald, eru vinsamlegast beðin um að senda upplýsingar um innleggsreikning og tilheyrandi kennitölu til Andrésarnefndarinnar. Einnig óskar nefndin eftir að fá send nöfn og heimilisföng ábyrgðaraðila hvers félags vegna leikanna, til að geta sent merki leikanna til félaganna. Þau félög sem koma til Akureyrar í næstu viku, þrátt fyrir að leikarnir verði ekki, eru beðin um að láta nefndina vita sem allra fyrst um áætlaðan fjölda, þar sem nefndin vill hitta þá sem koma á sumardaginn fyrsta og hafa smádagskrá í Kjarnaskógi og bjóða í sund og grillveislu.