Þessa frétt er að finna á heimasíðu SKI.

Jamie Dunlop Í dag var undirritaður samningur Skíðasambands Íslands við nýráðinn landsliðsþjálfara í alpagreinum, Jamie Dunlop. Jamie er ástralskur en hefur starfað í Evrópu síðustu tvo áratugina. Jamie er hvalreki fyrir íslenska skíðalandsliðið, enda reynsla hans af þjálfun mikil. Hann var aðalþjálfari hollenska landsliðsins á síðasta tímibili, en árin 2000-2002 var hann þjálfari hollenska kvennalandsliðsins. Hann hefur einnig fengist við þjálfun ástralska landsliðsins, þar af verið aðalþjálfari liðsins í eitt ár. Í vetur heldur íslenska skíðalandsliðið til Lillehammer í Noregi þar sem liðið mun æfa næstu veturna. Þar verður liðinu búnar mjög ákjósanlegar aðstæður. Núna um helgina hittir skíðalandsliðið nýjan þjálfara á þolæfingunum í Reykjavík, en skíðaæfingar hefjast strax í september þar sem færi gefst, en óvissa ríkir um aðstæður á jöklum í Evrópu vegna mikilla hita í álfunni.