Þessi frétt birtist á dagur.net

Skíðafélag Dalvíkur hefur náð samkomulagi við þrettán aðila um að þeir kosti snjóframleiðslu á skíðasvæðinu á Dalvík nú í haust og vetur en stefnan hefur verið sett á að opna svæðið eins fjótt og raunhæft þykir. Framlög þessara aðila duga til að framleiða snjó í alla neðri brekkuna og gott betur og einnig til að halda honum við í allan vetur. Snjóbyssurnar eru komnar á skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli og nú er bara beðið eftir frosti og hagstæðum veðurskilyrðum. Að sögn Óskars Óskarssonar, formanns SD gengur Samherji lengst að þessu sinni og ætlar að framleiða snjó í neðri brekkuna svo hægt verði að komast á skíði við fyrsta tækifæri. ,,Fyrsti opnunardagurinn á skíðasvæðinu verður því í boði Samherja en síðan er stefnt að því að hafa Samherjadag á skíðasvæðinu, en nánar verður sagt frá þeim degi síðar. Framlag Samherja er okkur gríðarlega mikilvægt því það gerir það að verkun að framlög hinna aðilanna dugir til að viðhalda snjónum í fjallinu í vetur og tryggja okkur jólasnjóinn þannig að áform okkar um að hafa skíðasvæðið opið um jólin og áramót ættu því að vera nokkuð trygg." Þegar markmiðinu um opnun svæðisins í samstarfi við Samherja hefur verið náð ætla eftirtaldir aðilar og jafnvel fleiri að sjá skíðafélaginu fyrir þeim snjó sem þarf að framleiða alla skíðavertíðina. Fyrirtækin eru: KEA, Saga Capital, VIS, Norðurströnd á Dalvík, Höldur, Katla, Tréverk, Samkaup, Sparisjóður Svarfdæla, Samhentir umbúðalausnir, Ásprent og einn ónafngreindur aðili. Óskar segir að framlög þessara aðila gera skíðamönnum kleift að viðhalda og bæta snjó í brekkurnar til þess að gera aðstæður enn betri. ,,Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að hér er um ótrúleg framlög að ræða sem skipta gríðarlega miklu máli fyrir Skíðafélag Dalvíkur og skíðaáhugamenn á Dalvík og víðar. Fyrirtæki þessi sýna okkur hér í Dalvíkurbyggð ótrúlegan skilning með þessum frábæru framlögum, og viljum við koma á framfæri bestu þökkum fyrir það. Það er okkur mjög mikilvægt að tryggja snjó á skíðasvæðinu á Dalvík því við ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni með rekstur þess. Framkvæmdir við uppsetningu snjókerfisins og fjárfesting í nýjum snjótroðara sem Dalvíkurbyggð styrkir, sýnir vel hvert við stefnum en þessar fjárfestingar kostuðu rúmar 65 milljónir króna," segir Óskar Óskarsson.