Til allra sem eiga skíði

Eins og glöggir skíðaáhugamenn hafa tekið eftir þá hefur verið mjög hart færi undanfarnar vikur. Sumum finnst þetta vera frábært, en öðrum og kannski flestum finnst þetta of hart. Eitt er víst að skíðunum okkar finst þetta rosalega hart! Ég heyrði fréttir af því að einhverjir hefðu lent í vandræðum með nýju skíðin sín, að botninn hefði losnað frá kantinum. Án þess að hafa séð skíðin þá tel ég nokkuð öruggt að þetta sé ekki galli. Hvort þetta sé galli eða ekki þá kom upp í huga mér vandamál sem oft kemur upp í aðstæðum eins og verið hafa undanfarið. Það sem gerist er það að eins og undarfarnar 2 vikur þá hefur verið hart færi og snjórinn verið þurr. Í hörðu færi verður núningurinn milli skíðis og snjós mikill, margfalt meiri heldur en ef það væri nýfallinn mjúkur snjór. Það sem gerist er kallað að "botninn brennur" þ.e. hann ofhitnar og bólgnar örlítið upp við kantinn og losnar aðeins frá kantinum. Þetta er mjög slæmt og skíðin geta gjör breyst og hreinlega verið ómöguleg. Á nýjum skíðum er meiri hætta á að þetta gerist. Það er vegna þess að þau hafa ekki verið brædd nógu oft eða jafnvel aldrei. Botninn er því mjög þurr og núningur við snjó því meiri. Þegar maður bræðir neðan í skíði þá dregur botninn alltaf í sig smá áburð sem verður eftir í botninum sem fer ekki þó botninn sé skafinn. Hinsvegar ef hætt yrði að bræða í skíðin þá mundi botninn smá saman þorna upp og verða viðkvæmur aftur. Við viljum kvetja alla til að hugsa vel um skíðin sín og bræða neðan í reglulega ´serstaklega þegar það er hart færi, og muna að maður bræðir ekki bara til að renna hratt heldur líka til að vernda botninn. Fyrir utan það að skíði renna hraðar eftir því sem búið er að bræða þau oftar, og það hefur lítið að segja að bræða einu sinni á vetri. Dæmi um það þá er brunskíðin sem kallarnir í heimsbikarnum eru að nota brædd nokkuð hundruð sinnum áður en þau eru keppnishæf og sum hver orðin nokkra ára. Með skíðakveðju Þjálfarar