Það er farið að styttast í mót. Í ár eru um 230 keppendur skráðir til leiks og veðurspáin er að okkur sýnist bara fín.
Eins og allir vita þá er í gangi skæður faraldur sem gengur undir nafninu Covid-19. Um er að ræða smitandi veirusjúkdóm sem berst á milli manna eftir hefðbundnum smitleiðum. Til að varna smiti þá er mikilvægt að gæta ítrasta hreinlætis og lágmarka snertingar á milli fólks. Af þessu tilefni höfum við gripið til varúðaráðstafanna sem felast í eftirfarandi aðgerðum:
- Gætt verður sérstaklega að hreinlæti á salernum og í matsal í Brekkuseli
- Handspritt verður aðgengilegt í Brekkuseli og hvetjum við alla til að nota það
- Verðlaunahöfum verður ekki óskað til hamingju með handabandi en í stað þess munu þeir fá Jónsmótskveðju sem að er eitt bringusundstak með höndunum.
Við viljum ennfremur biðja ykkur að leggja áherslu á eftirfarandi umgengnisreglur við börnin okkar:
- Á Jónsmóti 2020 þvoum við okkur reglulega um hendurnar með vatni og sápu og þurkkum okkur vel á eftir.
- Áður en hafist er handa við matreiðslu
- Fyrir og eftir máltíðir
- Eftir salernisferðir
- Eftir beina snertingu við sár, blóð og líkamsvessa
- Á Jónsmóti 2020 heilsumst við með Jónsmótskveðjunni, við knúsumst ekki, heilsum ekki með handarbandi og lágmörkum alla snertingu okkar á milli.
- Á Jónsmóti 2020 sprittum við á okkur hendur reglulega
- Á Jónsmóti 2020 hnerrum við og hóstum í krepptan olnboga eða í pappír
Við treystum á að þeir sem fullorðnir eru og fylgja börnunum hjálpi okkur við að gera þennan viðburð eins öruggan og kostur er og mælumst til þess að þið reynið að fylgja umgengniseglunum einnig á gististað.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Jónsmótsnefndin