27.03.2002
Dagana 4-7. apríl n.k. verður Skíðamót Íslands haldið á Dalvík og á Ólafsfirði. Undirbúningur mótsins er þessa dagana í hámarki og í mörg horn að líta s.s. undirbúningur fyrir sjónvarpsmenn en frá mótinu verður sýnt daglega og síðan samantekt í vikunni á eftir.
Undirbúningur keppnisbrekkna er á lokastigi og þrátt fyrir hlýindi síðustu daga er færið gott og hefur snjórinn haldist vel í brekkunum þó svo að þau svæði sem jafnan fara aldrei í kaf séu meira áberandi nú en þegar snjór er yfir öllu. Ekki þarf nema smá sólarglennu til að þessi svæði séu mjög áberandi og svo þarf ekki nema smá él til að allt útlit breytist.