16.04.2003
Unglingameistaramót Íslands fór fram í Hlíðarfjalli á mánudag og þriðjudag. Breiðablik var mótshaldari og átti mótið upphaflega að fara fram í Bláfjöllum 5.-6. apríl en varð að fresta vegna veðurs. Mótið var flutt í Hlíðarfjall þar sem Breiðablik fékk Skíðafélög af svæðinu sér til aðstoðar. Það voru níu félagar úr Skíðafélagi Dalvíkur sem aðstoðu við mótið sem fór fram við ágætar aðstæður í Hlíðarfjalli.
Það voru Snorri Páll Guðbjörnsson, Kári Brynjólfsson og Kjartan Hjaltason sem kepptu fyrir hönd Skíðafélags Dalvíkur á mótinu.
Snorri Páll átti mjög góða helgi. Hann vann stórsvigið á mánudag og varð í þriðja sæti í sviginu í gær.
Væntanlega hefur Snorri verið með hugan við að koma sér niður í sviginu því mikið var í húfi fyrir hann og uppskar hann sigur í alpatvíkeppninni á Unglingameistaramótinu með þessum árangri. Snorri hafði orð á því að tími hefði verið komin á að skila sé í mark í svigi á Unglingameistaramóti en hingað til hefði honum ekki tekist það.
Gríðarlega hörð keppni var um heildarstiga bikarinn í flokki 15-16 ára pilta og gátu þrír keppendur unnið hann. Það fór hins vegar þannig að Snorri tryggði sér bikarinn með því að vera þriðji í sviginu og varð því bikarmeistari SKI í flokki 15-16 ára pilta.
Kári Brynjólfsson sem varð þrefaldur unglingameistari í flokki 13-14 ára á síðasta ári keppti á yngra ári í flokki 15-16 ára í vetur. Kári er mjög efnilegur skíðamaður og leggur allt undir í keppnum og gerði það einnig á þessu móti. Hann hafnaði í sjötta sæti í stórsviginu eftir að hafa hlekkst á í fyrri ferð og tapað töluverðum tíma. Í seinni ferðinni átti hann mjög góða ferð og var með þriðja besta tímann í henni og hefði allt eins getað krækt sér í þriðju verðlaun hefði honum ekki hlekkst á. Í sviginu urðu honum á mistök í fyrri ferð í miðri braut og hætti hann keppni. Kári fór síðan seinni ferðina en keppendum er heimilt að fara hana þrátt fyrir að hafa ekki klárað fyrri ferð. Þar átti hann góða ferð og skilaði sér í mark með brautartíma sem var með þeim bestu.
Kjartan er á yngra ári í flokki 13-14 ára og gerði ágæta hluti á mótinu. Í sviginu hlekktist honum á í fyrri ferð en hélt áfram og átti síðan mjög góða seinni ferð og var með níunda besta tíman í henni. Kjartan sýndi það svo í stórsviginu að hann er í hópi bestu manna þar þegar hann hafnaði í 12 sæti. Það er öruggt að hefðu snjóalög í Böggvisstaðafjalli verið betri í vetur og æfingafjöldi verið eðlilegur hefði Kjartan náð enn betri árangri og sama má segja um Kára.
Það er óhætt að segja að framtíðin hjá okkur sér björt og er ljóst að þeir Snorri, Kári og Kjartan geta allir varið í fremstu víglínu á næstu árum og skipað sér á stall með okkar besta skíðafólki.