02.04.2002
"Við höfum verið að vinna í stórsvigsbakkanum hérna í Böggvisstaðafjalli frá því seinnipartinn í dag og eftir að hafa skoðað brekkuna verð ég að segja að brúnin hefur lyfst á mér," sagði Óskar Óskarsson, mótsstjóri Skíðamóts Íslands í kvöld. "Eins og við höfum áður sagt leggjum við í alla þá vinnu sem við getum til þess að við getum haldið stórsvigið hér, en við þurfum þá líka á velvild veðurguðanna að halda," sagði Óskar og bætti við að honum hefði létt eilítið eftir að hafa séð veðurspána í kvöld sem gerði ráð fyrir kólnandi veðri á fimmtudag. "Hins vegar er það nú svo að það hefur lítið verið að marka spána að undanförnu þannig að það er best að trúa henni mátulega mikið," sagði mótsstjórinn.
Nær óvinnandi vegur er að frysta stórsvigsbrekkuna, enda er um svo gríðarlega stórt svæði að ræða. Hins vegar munu mótshaldarar frysta svigbrekkuna í Böggvisstaðafjalli ef með þarf, en til þess þyrfti að notast við köfnunarefnisríkan tilbúinn áburð. Í Hlíðarfjalli er hins vegar farin sú leið í frystingu á brautum að strá salti yfir snjóinn, en tilbúinn áburður er á bannlista í Hlíðarfjalli sökum þess að Akureyringar fá neysluvatn sitt úr vatnslindum í fjallinu.