Varðandi tryggingamál skíðafólks.

Síðustu vikur hafa Skíðafélagi Dalvíkur borist spurningar um tryggingamál iðkenda félagsins í ljósi slysa sem hafa orið í vetur. Ljóst er að þessi mál eru mjög vandmeðfarin og síður en svo einföld og því hvetjum við alla sem eiga börn og unglinga á skíðum að kynna sér þessi mál rækilega annað hvort hjá sínu tryggingafélagi eða Tryggingastofnun. Það er mjög nauðsynlegt fyrir alla sem stunda skíðaíþróttina sem og aðrar íþróttir að kynna sér þessi mál og vera með þessa hluti á hreinu. Hér á eftir koma nokkrar útskýringar sem ættu að gefa grófa mynd af því hvernig þessi mál virka en eins og áður hefur komið fram biðjum við fólk að kanna sín mál hvað þessa hluti varðar. Fyrir nokkrum árum gerði Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið samning við ÍSÍ sem gildir einungis fyrir þá sem eru 16 ára og eldri en fyrir yngri aðila gilda almannatryggingar og fjölskyldutryggingar sem seldar eru hjá tryggingafélögunum. Þess ber að geta að í sumum tilfellum ná almennar tryggingar eða heimilistryggingar ekki til slysa utan Íslands. Því þarf að kanna þau mál mjög vel áður en farið er í skíðaferðir erlendis og því hvetjum við alla sem fara erlendis á skíði að kanna sín mál sérstaklega og jafnvel að slysatryggja sig fyrir slíkar ferðir. Þá hafa þeir sem nota kredidkort val til þess að greiða ferðirnar með korti og í leiðinni öðlast tryggingar sem vert er að kynna sér hverju sinni. Á heimasíðu ÍSÍ er reglugerð um íþróttaslysasjóð og bendum við foreldrum og jafnvel iðkendum á að skoða og kynna sér þessi mál þar. Hvað önnur óhöpp varða sem verða, til dæmis á skíðasvæðinu hér á Dalvík, þar sem til dæmis iðkandi veldur skemmdum á búnaði annars þá eru það tryggingar þess sem veldur sem bæta tjónið ef hann er á annað borð tryggður. Skíðasvæðið er ekki bótaskylt í þannig málum eða öðrum þar sem skýrt er tekið fram að allir sem eru á skíðum á svæðinu eru á eigin ábyrgð. Óhöpp sem rekja má til hluta tengda svæðinu eru þó bætt ef sannað er að búnaður svæðisins hefur valdið þeim. Enn og aftur hvetjum við fólk til þess að skoða sín tryggingamál vel því slysin gera ekki boð á undan sér.