18.11.2002
Á laugardaginn hélt Skíðafélag Dalvíkur upp á 30 ára afmæli sitt.
Um 200 manns mættu í Brekkusel og þáðu veitingar í boði félagsins sem voru ekki að verri endanum. Það voru félagar í skíðafélaginu sem gáfu terturnar og síðan sá vösk sveit kvenna um að veislu borðið væri alltaf fullt af kræsingum.
Formaður Skíðafélags Dalvíkur kvaddi sér hjóðs og sagði frá því að stjórn félagsins hefði ákveðið að gera þá Jón Halldórsson og Þorstein Skaftason að heiðursfélögum fyrir þrjátíu ára þrotlaust starf í þágu félagsins.
Félaginu bárust margar heillakveðjur og gjafir, meðal annars peningagjöf frá Dalvíkurbyggð sem Svanhildur Árnadóttir forseti bæjarstjórnar afhenti formanni félagsins. Svanhildur ávarpaði samkomuna og rifjaði upp uppbyggingarsögu félagsins en hún er henni ekki alveg ókunnug því hún sat í stjórn félagsins í nokkur ár eftir stofnun þess. Svanhildur hafði einnig á orð á því að alla tíð hefði félagið haft vaskar konur í framvarðasveit félagsins sem meðal annars ættu ótrúlega auðvelt með að sjá um veislur sem þessa. Hún minntist þess einnig að á stjórnar árum sínum þegar Þorsteinn Skaftason hefði verið formaður þá hefðu stjórnarmenn alltaf fagnað því mjög þegar Steini hafði stjórnarfundi heima hjá sér því þá hefði Beta kona hans alltaf verið með uppdekkað veisluborð. Þennan sið ætti núverandi formaður kannski að taka upp!
Nágrannar okkar úr Skíðafélag Ólafsfjarðar færðu félaginu að gjöf fundarhamar og bjöllu, ákaflega fallega gripi sem eflaust eiga eftir að koma að góðum notum í framtíðinni. Það ekki er ólíklegt að félagar okkar úr Skíðafélagi Olafsfjarðar eigi eftir að heyra í bjöllunni góðu því samstarf félaganna er alltaf að aukast með tilheyrandi fundarhöldum. Þegar Sigríður Gunnarsdóttir formaður Skíðafélags Óafsfjarðar hafði afhent gjöfina færði hún félaginu kveðjur og blóm frá Skíðasambandi Íslands þar sem engin úr stjórn SKÍ átti heimangengt á laugardaginn. Í bréfi sem Sigríður las upp frá Friðriki Einarssyni formanni SKÍ kom meðal annars fram að það hefði sannast í vetur þegar landsmótið var haldið á Dalvík og Ólafsfirði að hér væri unnið öflugt og kraftmikið starf sem hefði endurspeglast í að öll framkvæmd og undirbúningur mótsins hefði verið til mikillar fyrirmyndar. Einnig kom fram að skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli hafi markað sér ákveðin sess þar sem jafnan væri opnað fyrst allar skíðasvæða á landinu og uppbygging svæðisins hefði verið markviss og til fyrirmyndar sem gerði það að verkum að það dragi að sér fólk að öllu landinu. Í lok bréfsins sagði að Skíðasamband Íslands óskaði Dalvíkingum öllum hjartanlega til hamingju með daginn og það öfluga og óeigingjarna starf sem unnið hefði verið í þágu skíðaíþróttarinnar síðastliðin þrjátíu ár.
Skíðafélagið þakkar öllum þeim sem gáfu sér tíma til að kíkja við Brekkuseli um helgina og samfanga með okkur, sérstakar þakkir til bæjaryfirvalda, SÓ, SKI og annara sem færðu okkur hlý orð og góðar gjafir í tilefni tímamótanna.