26.11.2002
Síðastliðinn föstudag stóð Skíðafélag Dalvíkur fyrir uppákomu fyrir börn á aldrinum 8-12 ára.
Krakkarnir mættu við Víkurröst þaðan sem lagt var af stað í ratleik sem Elsa Benjamínsdóttir skipulagði með aðstoð frænda síns Kristins Björnssonar. Krökkunum var skipt í fjóra hópa og áttu þau að finna miða á hinum ýmsu stöðum í bænum með ábendingum sem enduðu í Brekkuseli. Þar beið krakkana pizzuveisla og aðrar kræsingar.
Um 35 börn mættu og óskaði félagið eftir því að foreldrar næðu í krakkana að skemmtun lokinni og gæfu sé tíma til að setjast niður með forráðamönnum Skíðafélagsins og ræða fyrirhugað vetrarstarf.
Um 15 foreldrar mættu og gáfu þeir sér góðan tíma til að ræða ýmis málefni. Fram kom að stjórnendur félagsins vilja blása til sóknar til að efla barnastarfið með dyggum stuðningi foreldra. Foreldrar tóku vel í þær hugmyndir og hjá þeim kom fram að félagið ætti ekki að hika við að fara fram á aðstoð foreldra þó svo að allir hefðu næg verkefni, það væri einfaldlega hlutverk foreldra að styðja við bakið á börnum sínum og gera þeim kleift að stunda sín áhugamál.
Á fundinum var rætt um að koma á laggirnar teymi til stuðnings foreldrafélaginu fyrir hvern æfingahóp sem skipulegði síðan uppákomur með það að markmiði að efla áhuga krakkanna á starfinu.
Nokkur umræða varð um þær fjáraflanir sem foreldrafélagið er með. Fram kom að mjög misjafnlega gengi að fá fólk til að fara með börnum sínum í fjáraflanir sem þau þyrftu stuðning við s.s. dósasöfnun, en þeir peningar sem þar safnast fara í að niðurgreiða kostnað vegna Andrésar Andarleikana. Ástæðan fyrir þessu er sennilega sú að allir hafa meira en nóg að gera og því velur fólk einfaldlega þau verkefni sem það gefur sér tíma til að fara í með börnum sínum. Málið er að fólk finnur sér ekki tíma og/eða hefur ekki áhuga en þessu viljum við í stjórn félagsins reyna að breyta og við erum til í að leggja okkar af mörkum til að svo megi vera. Niðurstaða fundarins var sú að stjórn félagsins og foreldrafélag ræddu hvernig væri best að ná til þeirra foreldra sem ekki voru mætt á þennan ágæta rabbfund.
Að lokum viljum við í stjórn félagsins hvetja alla sem með okkur vilja starfa og rétta okkur hjálparhönd að setja sig í samband við stjórnina og bjóða fram aðstoð sýna sem þegin verður með þökkum því starfsemi Skíðafélags Dalvíkur vex ár frá ári og því þurfum við alla aðstoð sem hægt er að fá.
Styðjum við bakið á börnum okkar og hvetjum þau til að stunda íþróttir það skilar sér þegar þau eldast.