23.02.2002
Það telst ekki til tíðinda að hópar úr skólum landsins komi á skíði til Dalvíkur en óhætt er að segja að það kemur þægilega á óvart að kennarar og nemendur úr Hamarsskóla Vestmannaeyjum ætla að koma til Dalvíkur á skíði í byrjun mars.
Frétta mönnum heimasíðu Skíðafélags Dalvíkur lék forvitni á að vita af hverju þeim datt í hug að koma alla þessa leið til að koma á skíði og hafði samband við Guðrúnu Helgu sem fer fyrir hópnum og hún skrifaði okkur eftirfarandi línur.
Af hverju Dalvík ?
Í vetur hefur hópur barna í Vestmannaeyjum, undir forystu einnar móður verið að undirbúa skíðaferð til Dalvíkur frá Vestmannaeyjum.
Dalvík kom strax upp í huga móðurinnar á fyrsta foreldrafundi haustsins 2001.
Ástæðan fyrir því var sú að hún hafði farið þangað áður með sín börn fyrir nokkrum árum og fannst aðstaðan þar og öll þjónusta kjörin fyrir þennan hóp.
Af 21 barni á aðeins eitt barn skíði.
Það segir allt sem segja þarf, þau eru ekki vön skíðum og fæst hafa stigið á skíði, hvað þá foreldrar þeirra . Þegar ég byrjaði að kanna aðstæður og ýmsa praktíska hluti á Dalvík voru móttökur og undirtektir allra sem ég talaði við í einu orði frábærar. Stúlkan á bæjarskrifstofunni hjálpaði mér að finna Óskar með þvílíkri ljúfmennsku og allir aðrir sem ég hef þurft að hafa samskipti við hafa í einu orði sagt verið frábærir. Þar má nefna starfsfólkið í sundlauginni,Heiða á safninu og síðan en ekki síst Óskar Óskarsson. Vegna þessara jákvæða viðmóts var aldrei nein spurning af minni hálfu að vera að kanna aðra staði eða möguleika. Ferðalagið norður tekur okkur um 8 klst.þ.e.sigling yfir hafið og síðan akstur norður, en við ætlum að stoppa á Hvammstanga til að liðka okkur og vonandi að fá okkur sundsprett þar. Það styttist óðum í ferð okkar. Vonandi verðum við okkar bæjarfélagi til sóma, eins og þið hafið verið ykkar bæjarfélagi. Sjáumst hress og kát 5. mars n.k.
f.h.hópsins
Guðrún Helga mamma.