03.03.2006
Vonandi kemst ég þangað sem ég ætla mér, á toppinn"
Nú er nýlokið Ólympíuleikunum í Tórínó á Ítalíu. Þar áttu Eyfirðingar fjóra keppendur af fimm í alpagreinum;
þau Dagnýju Lindu Kristjánsdóttur frá Akureyri, Kristján Una Óskarsson frá Ólafsfirði og Kristin Inga Valsson og Björgvin Björgvinsson úr Dalvíkurbyggð. Öll stóðu þau sig afar vel en það er ekki einfalt að verða skíðamaður í fremstu röð. Það kostar mikla vinnu, þrautseigju og stuðning. Það kemur vel fram í viðtali dags.net við Björgvin sem hér fer á eftir. En hver er Björgvin Björgvinsson?
Frá Dalvík á skíðamenntaskóla í Noregi
Björgvin er fæddur árið 1980 og alinn upp á Dalvík þar sem hann á enn heimili hjá foreldrum sínum þeim Hafdísi Sigurbergsdóttur og Björgvin Gunnlaugssyni. Hann er yngstur þriggja systkina. Eftir að hann hafði lokið grunnskóla á Dalvík fór hann í skíðamenntaskóla í Noregi þar sem hann lauk stúdentsprófi eftir þriggja ára nám og fékk í leiðinni þjálfarapróf. Síðan hefur hann nánast eingöngu stundað skíðin. Nú síðast tók hann þátt Ólympíuleikunum í Tórínó þar sem náði 22. sæti í svigi og náði þar með bestum árangri Íslendinga á leikunum og einum besta árangri sem íslenskir keppendur hafa náð á Vetrarólympíuleikum.
Fyrstu skíðin keypt á flóamarkaði
Björgvin byrjaði að æfa skíði 4 ára gamall hjá Skíðafélagi Dalvíkur sem er enn hans félag og bakhjarl. Hann byrjaði að keppa á innanfélagsmótum 5 ára gamall og síðan á Andrésar Andarleikum 6 ára. Honum gekk strax vel, varð sjötti á fyrstu Andrésarleikunum og keppti þá ,,upp fyrir sig". Síðan varð það frekar reglan að hann ynni sínar keppnir.
Sverrir bróðir minn keypti fyrstu skíðin mín á flóamarkaði og hann kom mér á skíði. Pabbi var úti á sjó og mamma vann í fiskhúsinu þannig að mér var bara skutlað upp í fjall eftir skóla og þar var ég alla daga. Mér gekk vel en ég var samt aldrei nein barnastjarna. Mér fór fyrst að ganga verulega vel á unglingsárunum, með auknum þroska og styrk. Þá jókst líka áhuginn".
Björgvin Hjörleifs besti barnaþjálfari á Íslandi
Björgvin Hjörleifsson, þjálfarinn minn til unglingsára, segir mér að ég hafi verið mikið í Löngulautinni að stökkva þegar ég var krakki. Einnig hafi ég mikið verið að horfa á hina eldri og ef ég var orðinn þreyttur hafi ég bara setið og horft á lyftuna. Björgvin Hjörleifs er mjög fær með börn og ég segi hiklaust að hann sé besti barnaþjálfari á Íslandi".
Eftir heimsmeistaramót unglinga 1998 fóru hjólin að snúast
Á Noregsárunum var ég farinn að keppa á FIS mótum og startaði þá langsíðastur. En ég vann mig fljótt upp og þá fór ég einnig að fara til Svíþjóðar og Austurríkis og keppa og fór þá fljótt að vinna alþjóðleg mót. Árið 1998 vann ég svo heimsmeistaramót unglinga í Frakkalandi. Þá byrjuðu skíðafyrirtækin að reyna að fá mig til að auglýsa fyrir sig. Þau bjóða bæði skíði og peninga. Undir þeim kringumstæðum gerir maður samning við eitthvert fyrirtæki sem sér manni þá fyrir skíðum og bindingum og að maður hafi nægan skíðaútbúnað. Landsliðið sér mér svo fyrir fatnaði".
Eftir unglingaheimsmeistaramótið var ég kominn í topp 100 í heiminum og var talinn mjög efnilegur því það eru ekki margir sem komast svona langt ungir. Það koma alltaf tímabil þegar gengur vel en svo eru líka tímabil þegar allt er í baksi og maður á í meiðslum og þess háttar. Árin 1999 og 2000 gekk allt vel. Síðan kom erfitt tímabil 2001 og 2002. Í fyrra og í ár hef ég svo verið mjög sterkur og gengið vel".
Skíðin eru bæði vinna og tómstundir
Já þetta er auðvitað dýrt. Það kostaði sitt að vera í þessum skíðamenntaskóla í Noregi og svo eru ferðalög kostnaðarsöm. Ég hef fengið mikinn stuðning frá fyrirtækjum hér og svo hafa foreldrar mínir styrkt mig. Ég er í þessu nánast allt árið, þetta er í raun bæði vinnan mín og tómstundir. Ég stunda það sem kölluð er venjuleg vinna e.t.v. einn mánuð á sumri þegar ég á frí frá skíðunum".
Þessu fylgja mikil ferðalög og fjarvistir frá Íslandi. Ég er kannski heima 2 til 3 mánuði á ári, kem heim af og til í nokkra daga. Kærastan mín, Harpa Rut Heimisdóttir, er í Íþróttaháskólanum á Laugarvatni og ég er mikið þar þegar ég kem heim. Það er flottur staður og frábær aðstaða til æfinga. Þar get ég bæði verið við þrekæfingar og lyftingar".
Undanfarin þrjú ár hafa verið skemmtileg
Undanfarin ár hefur þetta verið ofsalega gaman. Það er þannig að uppúr tvítugu er fólk e.t.v. ekki visst um hvort það vill þetta eða bara að fara að lifa venjulegu lífi. Það getur verið erfitt tímabil. En undanfarin þrjú ár hef ég séð þetta öðruvísi og verið harður á því að halda áfram. Það hefur verið gaman og ég hef eignast vini og félaga sem eru topp skíðamenn og ég hef ferðast mikið um heiminn. Við eigum reyndar ekki kost á því alls staðar að sjá mikið meira en hótelin og skíðabrekkur. Þetta er svona rútina; annast skíðin, snemma að sofa og svo á mótin og í keppni. En þegar við eigum frídaga inn á milli þá reynum við að skoða okkur um. Við vorum t.d. í Ástralíu síðastliðið sumar og þá skoðuðum við okkur mikið um enda ekki á hverjum degi sem við komum þangað".
Ég ætla mér á toppinn"
Vonandi kemst ég þangað sem ég ætla mér, á toppinn. Ég tek þátt í Evrópubikarnum og heimsbikarnum, það eru þær mótaraðir sem ég tek þátt í og með því að fylgjast með þeim má sjá hverjir eru bestir og hvernig þeir standa sig. Þar eru alltaf bestu mennirnir".
Þeir sem komast lengst geta orðið ríkir því þeir geta fengi mjög há laun, allt að 500 til 700 milljónir á ári. Þá eru þeir orðnir atvinnumenn og komnir á topp 50 heimslistann. Ég er alveg við þennan lista, mér þarf eiginlega bara að ganga vel á einu móti og þá gæti ég verið kominn þangað inn".
Núna ætla ég fyrst og fremst að einbeita mér að því að verða betri á skíðum"
Menn hætta kringum 35 ára aldurinn ef þeir ná á toppinn. Hin sem ná ekki toppnum fyrir 29 ára aldurinn snúa sér gjarnan að öðru. Þau fara að þjálfa, sumir stofna skíðaskóla eða fara að vinna fyrir skíðafyrirtækin við að prófa og auglýsa skíði. Aðrir drífa sig bara í háskóla og mennta sig inn á vinnumarkaðinn. Ég er ekki búinn að sjá þá framtíð fyrir mér. Núna ætla ég fyrst og fremst að einbeita mér að því að verða betri á skíðum. Hitt kemur svo í ljós".
Skíðasvæðin á Dalvík og á Akureyri þau bestu á landinu"
Ég hef farið á öll skíðasvæði á landinu við misjafnar aðstæður. Skíðasvæðin á Dalvík og á Akureyri eru þau bestu á landinu en síðustu árin hefur vantað snjóinn sem er ekki nógu gott fyrir krakkana. Þau fá þá ekki sama skíðauppeldi og við fengum vegna snjóleysis. Snjóbyssurnar geta þó breytt þessu og með þeim verður vonandi hægt að halda snjó í brekkunum og þannig að halda þeim opnum. Og ég hef heyrt að hin skíðasvæðin munu líka kaupa sér þessar snjóframleiðslugræjur".
Þakklátur fyrir stuðninginn að heiman
Að lokum vil ég koma því á framfæri að ég er ánægður með að vera Dalvíkingur og vil þakka Dalvíkingum fyrir allan stuðninginn í gegnum árin".
SJ