Viltu vinna 50 þúsund kall?

Skíðafélag Dalvíkur mun halda Promens mótið í samhliða svigi í tengslum við bikarmót 15 ára og eldri sem haldið verður á Dalvík í lok mars. Samhliða svigið verður keyrt fimmtudagskvöldið 26. mars og er öllum 15 ára og eldri heimil þátttaka. Keppt verður í karla og kvennaflokki og stuðst við reglur alþjóða skíðasambandsins. Promens Dalvík er styrktaraðili mótsins og verða veitt 50.000 kr peningaverðlaun fyrir fyrsta sætið í hvorum flokki fyrir sig ásamt einu eintaki af hinum margrómaða Dalvíkursleða sem hannaður er af heimamanninum Degi Óskarssyni og framleiddur af Promens Dalvík. Stefnt er að því að gera mótið áhorfendavænt og eru skíðaáhugamenn hvattir til að taka þetta kvöld frá og skella sér í Böggvisstaðafjall til að sjá marga af bestu skíðamönnum landsins reyna með sér. Þátttökugjald verður 3.000 kr og skráningar þurfa að berast á skidalvik@skidalvik.is fyrir 20. mars n.k.