Yfirburðir Ísfirðinga í boðgöngu karla - ótrúleg keppni um silfrið

Eins og við var búist sigruðu Ísfirðingar með miklum yfirburðum í 3x10 km boðgöngu karla á Skíðamóti Íslands, en keppni var að ljúka í Ólafsfirði. A-sveit Ísafjarðar, skipuð þeim Ólafi Th. Árnasyni, Markúsi Þór Björnssyni og Jakobi Einari Jakobssyni sigraði á tímanum 1:37:02 mín. Önnur varð sveit Akureyrar á tímanum 1:40:56 mín og þriðja á nákvæmlega sama tíma varð sveit Ólafsfjarðar. Sjónarmunur réð úrslitum, Helgi Heiðar Jóhannesson, sem gekk síðasta sprett fyrir Akureyri, náði að kasta sér fram í markinu og það tryggði Akureyringum silfrið. Aðrir í sveit Akureyrar voru Andri Steindórsson og Haukur Eiríksson. Í bronsverðlaunasveit Ólafsfjarðar eru Ólafur H. Björnsson, Hjörvar Maronsson og Hjalti Már Hauksson. Í fjórða sæti á tímanum 1:41:57 mín varð sérstök gestasveit, skipuð þeim Birgi Gunnarssyni, Sauðárkróki, Magnúsi Eiríkssyni, Siglufirði, og Sigurgeiri Svavarssyni, Ólafsfirði, og í fimmta sæti á tímanum 1:48:22 mín varð B-sveit Ísafjarðar, skipuð Einari Yngvasyni, Kristjáni Rafni Guðmundssyni og Magnúsi Ringsted Sigurðssyni.